Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Allir vinna gæti breyst í allir tapa

15.12.2021 - 07:54
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Allir vinna gæti breyst í allir tapa, ef hætt verður að endurgreiða virðisaukaskatt af viðhaldi fasteigna um áramótin eins og stefnir í samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Þetta kemur fram í umsögn Húseigendafélagsins um fjárlagafrumvarpið.

 Þar segir að átakið Allir vinna  hafi staðið vel undir nafni og skilað mjög góðum árangri. Viðhaldi og endurbótum hafi verið betur sinnt og dregið hafi mjög úr reikningslausum viðskiptum og skattsvikum, það er að segja, svartri vinnu. Einnig hafi átakið reynst líflína á erfiðum tíma fyrir iðnaðarmenn og fyrirtæki, störf hafi skapast og verðmæti eigna haldist. Átakinu var komið á til að hvetja til framkvæmda og draga úr atvinnuleysi í heimsfaraldrinum.

Húseigendafélagið segir nú blikur á loft því ekki verði betur séð en á döfinni sé að fella þess ívilnun niður fyrir næsta ár, það yrði að mati félagsins til óheilla fyrir alla sem málið varða og allir myndu tapa í stað þess að vinna. Í umsögninni segir að flestir hafi gengið út frá á ívilnunin myndi haldast út næsta ár og miðað áætlanir við það og bendir á að hjá til að mynda húsfélögum sé aðdragandi framkvæmda oft langur. Minnt er á að í aðdraganda Alþingiskosninganna hafi bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur lýst yfir vilja til að halda átakinu áfram.

Húseigendafélagið skorar því á stjórnvöld og Alþingi að framlengja þessa ívilnun út næsta ár að minnsta kosti.

Þess má geta átakið náði einnig til bílaviðgerða. 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV