Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Virkni bólusetningar gegn smiti hjá börnum um 90%

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Börnum 5-11 ára verður boðin bólusetning gegn COVID-19 vikuna 10. til 14. janúar. Boð verða send til foreldra í vikunni þar á undan en bólusett verður í skólum. Sóttvarnalæknir segir að sjúkdómurinn geti verið alvarlegur hjá börnum á þessum aldri og virkni bóluefnanna hjá þessum hópi hafi verið mikil. Í bólusetningarannsókn á um þrjú þúsund börnum í nóvember kom í ljós að virknin gegn smiti var um 90 prósent og engar alvarlegar aukaverkanir komu fram.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fer yfir það á Covid.is hvers vegna mælst sé til þess að bólusetja börn. Hann vitnar í samantekt Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins frá fyrsta desember þar sem fram kemur að 0,6 prósent barna sem smitast af covid þurfi að leggjast inn á spítala. 10 prósent þeirra þurfi á gjörgæslu og 0,0006 prósent barna sem fái covid látist. Þetta sé líklega svipað í Bandaríkjunum, samkvæmt rannsóknum þar. Ef þetta yrði yfirfært á börn hér og öll börn á aldrinum 5-11 ára myndu smitast, alls um 32 þúsund. Þá mætti búast við því að 100-200 börn þyrftu að leggjast inn á sjúkrahús, 16 á gjörgæsludeild og 1-2 börn myndu láta lífið.

Þórólfur segir að alvarlegar aukaverkanir eftir bólusetningu hafi ekki komið fram. Það sé því ekki hægt að fullyrða með vissu hvort alvarlegar aukaverkanir muni sjást eftir bólusetninguna. Hjá eldri börnum komu fram bólgur í hjartavöðva komu fram hjá einum af hverjum 10.000 bólusettum. Þeim hefur ekki verið lýst hjá yngri börnum. „Ef tíðni alvarlegra aukaverkana COVID-19 og bólusetningar er yfirfærð frá aldurshópnum 12-16 ára yfir á aldurshópinn 5-11 ára á Íslandi, þá má búast við að 32 fengju hjartavöðvabólgu eftir COVID-19 en einungis 2 börn eftir bólusetningu. Að auki má búast við öðrum alvarlegum aukaverkunum eftir COVID-19  sem ekki sjást eftir bólusetninguna,“ segir á Covid.is. 

Heilsugæslan sér um framkvæmd bólusetningar. Heilsugæslustöðvarnar skipuleggja bólusetningar í sínum skólum. Yngstu börnin verða bólusett fyrst og síðan eldri bekkir koll af kolli en gert er ráð fyrir að foreldrar, í það minnsta yngstu barnanna, fylgi þeim í bólusetningu.