Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Þróa vöru úr lífmassa í nýrri líftæknismiðju á Akranesi

14.12.2021 - 10:50
Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Í nýrri líftæknismiðju á Akranesi er hægt að stunda rannsóknir og vöruþróun úr lífmassa. Frumkvöðlar sem þar eru teknir til starfa hafa sumir beðið í áratugi eftir slíkri aðstöðu.

Líftæknismiðja í Breið nýsköpunarsetri á Akranesi á að veita frumkvöðlum, stofnunum og fyrirtækjum aðstöðu til að stunda rannsóknir úr lífmassa og þróa uppskölunaraðferðir til að koma vörum á markað. 

Nú hefur viljayfirlýsing verið undirrituð af þrettán mismunandi aðilum; háskólum, sveitarfélögum og fleirum, um uppbyggingu smiðjunnar.

Bættur aðgangur að tækjum og aðstöðu

Allir sem þess óska geta fengið aðgang að rýminu til þess að þróa hugmyndir með nauðsynlegum tækjabúnaði sem er annars dýr og erfitt að nálgast. Slík aðstaða er af skornum skammti hér á landi, helst ber að nefna aðstöðu Matís í Reykjavík.

Þegar eru nokkrir teknir til starfa í smiðjunni. Þeirra á meðal eru feðgarnir Bergur Benediktsson og Þórður Bergsson sem vinna ensím úr sjávarafurðum. 

„Ég hef verið í þessu í einhver 35 ár og það hefur alltaf verið talað um að koma einhverju svipuðu á legg, segir Bergur. 

Þórður segir að þeir gætu ekki klárað sína þróunarvinnu ef þeir hefðu ekki aðstöðu eins og þessa á Breið eða sambærilega. Þá sé gott að koma snemma inn í rýmið. 

„Fínt að vera að koma og fá að þróa aðeins aðstöðuna og hvað verður gert í henni, segir Þórður. 

Ekki eru það einungis aðstaða og tæki sem koma frumkvöðlunum að góðum notum, heldur fylgir samvinnurýminu líka félagsskapur.

„Það er uppbyggilegt að vinna með öðrum sem hafa hliðstæðan áhuga. Þótt þeir séu kannski að vinna í allt öðru efni,“ segir Sigríður Kristinsdóttir sem vinnur lífplast úr þangi.