Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Opnuðu hjólaleigu á Ísafirði í desember

14.12.2021 - 16:56
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Nú er hægt að leigja sér hjól á Ísafirði með appi í símanum. Hjólaleigan opnaði í byrjun desember og er með tíu hjól á nagladekkjum til útleigu í vetur.

Hjólin eru appelsínugul og auðþekkjanleg á götum Ísafjarðar. Hjólaleigan er hluti af samnorrænu verkefni sem sem gengur út á að veita ferðamönnum, sem koma með skemmtiferðaskipum, umhverfisvænan ferðamáta. 

„Ef þú vilt sækjahjól sækirðu appið Donkey Republic, finnur hjól til að taka frá og smellir á það. Appið sýnir staðsetningu hjólanna, svo gengurðu að hjólunum og finnur það á nafninu. Svo mellirðu á rétt hjól og hjólar af stað,“ segir Tyler Wacker, hjólaviðgerðamaður sem sér um leiguhjólin. 

Hvert hjól hefur sitt nafn. Eflaust kannast margir við hinar ýmsu persónur og fyrirbæri sem þau draga nöfn sín af. Tyler segir Vestfirði tilvalinn stað til að ferðast um á hjóli; með flötum eyrum og stuttum vegalengdum.

„Reiðhjólið er frábær samgöngumáti innanbæjar og kemst næstum jafnhratt og bíll, ef ekki hraðar í vissum tilvikum.“ 

Hjólin tíu sem eru nú komin á göturnar verða þá prufukeyrð, eða prufuhjóluð, af heimamönnum í vetur. 

En gengur þetta að vetri?

„Já, ég held það. Hjólin eru sterkbyggð og vel búin með nagladekkjum og allt og ráða vel við snjóinn. við erum spennt að sjá hvað fólkinu í bænum finnst og fáum vonandi fleira fólk til að hjóla í vetur.“ 

En fjölgið þið hjólunum í sumar?

„Já, nú erum við með tíu hjól yfir veturinn og þegar snjórinn bráðnar fáum við tuttugu til viðbótar. Við vonum að heimamenn leigi þau ásamt fólki af skemmtiferðaskipum og öðrum sem eiga leið hér um.“