Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Norðurþing býður Tjörnesingum til sameiningarviðræðna

Mynd með færslu
 Mynd:
Sveitarstjórn Norðurþings hefur samþykkt að bjóða Tjörneshreppi til formlegra sameiningarviðræðna. Oddviti Tjörneshrepps segir ekki raunhæft að kosið verði um sameiningu í vor.

Engar formlegar viðræður boðaðar

Tillagan var samþykkt samhljóða á fundi sveitarstjórnar Norðurþings fyrr í mánuðinum. Aðalsteinn J. Halldórsson er oddviti Tjörneshrepps sem er eitt fámennasta sveitarfélag landsins með tæplega 60 íbúa. 

„Nei, það hefur ekki verið boðað til formlegra viðræðna og ég átti óformlegt samtal við einn sveitarstjórnarfulltrúa Norðurþings og það hafði nú breyst tillagan í meðför sveitarstjórnarfundar Norðurþings og það er engin tímasetning á þessu boði eins og var í fyrri tillögu og ég á nú satt að segja ekkert frekar von á því að þetta sé að fara að gerast endilega núna fyrir kosningar að okkur sé boðið til formlegra viðræðna.“

Norðurþing eini sameiningarkosturinn

Aðalsteinn segir að hreppsnefndin hafi rætt sameiningarmálin en hafi nóg annað að gera. Það sé þó samdóma álit innan hreppsins að sameining við Norðurþing sé eini raunhæfi sameiningarmöguleikinn. Hann segir stefnuna þó ekki að vinna að þeim málum fyrr en eftir sveitarstjórnarkosningar í vor. 

„Það eru örfáir mánuðir eftir af kjörtímabilinu og tæpast raunhæft að vera að hjóla í þessa vinnu núna. Sem stendur reiknum við að það gerist lítið næsta misserið. Við erum ekkert að flýta okkur,“ segir Aðalsteinn.