Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Leita hins sanna jólaanda í Hlöðunni á Akureyri

Mynd: Árni Beinteinn Árnason / KrakkaRÚV

Leita hins sanna jólaanda í Hlöðunni á Akureyri

14.12.2021 - 15:11

Höfundar

„Markmiðið er náttúrulega bara að fjölskyldur hér á norðurlandi geti komið hingað í hlöðuna og átt huggulega jólastund,“ segir Aníta Ísey Jónsdóttir höfundur og leikstjóri fjölskyldusýningarinnar Jólatöfrar sem sýnd er í Hlöðunni, Litla-Garði rétt fyrir utan Akureyri.

Jólatöfrar er sýning fyrir yngstu kynslóðina þar sem töfrar jólanna eru settir á svið með litríkum leik, söng og dansi. Sagan segir frá Ellý sem er spennt fyrir jólunum, mest vegna gjafanna eins og flest börn á hennar aldri. Það sem hún þráir hvað allra heitast er að hitta jólasveininn og nóttina fyrir aðfangadag gerast svo ótrúlegir hlutir.

Hlöðunni á Akureyri verður breytt í lítið jólaland með jólamarkaði með allskyns fallegum munum. Kaffi, kakó og vöfflur verður til sölu og öll börn fá mandarínu frá jólasveininum að sýningu lokinni.

Höfundur verksins og leikstjóri er Aníta Ísey Jónsdóttir sem segir að sýningin snúist um leitina að hinum sanna jólaanda. Með hlutverk í sýningunni fara Jónína Björt Gunnarsdóttir, Margrét Sverrisdóttir og Ívar Helgason.

Árni Beinteinn Árnason kynnti sér Jólatöfra í Húllumhæ og hægt er að horfa á innslagið í spilaranum hér fyrir ofan.

Mynd með færslu
 Mynd: Árni Beinteinn Árnason - KrakkaRÚV
Jólaandinn svífur yfir vötnum í Hlöðunni á Akureyri