Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Fangelsismálastjóri sest í dómarasætið í Morgunblaðinu

14.12.2021 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Samsett
Páll Winkel, lögfræðingur og fangelsismálastjóri, hefur nýlega hafið að skrifa bókmenntarýni í Morgunblaðið. Blaðamaðurinn Marta María Winkel Jónasdóttir, sem ritstýrt hefur Smartlandi Morgunblaðsins í áraraðir, er eiginkona Páls. Hann segist nálgast rýnina sem áhugamaður þar sem hann hafi hvorki menntun né bakgrunn í bókmenntafræðum, eða skrifum um menningu og listir.

Aðspurður segist Páll ekki hafa fengið greitt fyrir skrifin og það hafi „ekki verið rætt enn sem komið er“. Hann segir að sér hafi verið boðið verkefnið eftir að hafa kynnst starfsfólki Morgunblaðsins í gegnum eiginkonu sína, meðal annars á árshátíðum.

Hann hafi meðal annars rætt við þau um bókmenntaáhuga sinn og hugmyndin kviknað að hann myndi skrifa bókmenntagagnrýni sem birt yrði í blaðinu.

Tveir dómar hafa birst eftir Pál Winkel til þessa, um skáldsögurnar Þung ský eftir Einar Kárason og Kóperníku eftir Sölva Björn Sigurðsson, þar sem umfjöllunarefnið er hryllilegt glæpamál. Bækurnar hlutu mikið lof Páls og gaf hann þeim báðum fjórar og hálfa stjörnu í einkunn.