Taco úr laufabrauði

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn

Taco úr laufabrauði

13.12.2021 - 10:13

Höfundar

„Þetta er náttúrulega bara hugmynd og ekki endilega góð hugmynd, en samt ástæða til að prófa," segir Andri P. Guðmundsson, á Hvammstanga, en hann hefur verið að leika sér með nýjungar í laufabrauðsgerð.

„Það er löng hefð fyrir laufabrauðsgerð í þessari fjölskyldu og við komum yfirleitt saman eina helgi í desember og skerum út, vel á annað hundrað kökur."

Og þar er ekki kastað til höndum því hver einasta kaka er þakin hverskonar mynstrum og allt er gert með vasahníf. „Já við þekkjum ekki annað en að gera þetta án hjálpartækja á borð við laufabrauðsjárn en þetta tekur vissulega tíma, við gefum verið uppí fjörtíu mínútur með kökuna," segir Andri.
Í fyrr fór Andri aðeins út fyrir hefðina og prófaði þá í fyrst sinn það sem hann kallar laufabrauðstaco.

„Ég geri þá bara svona minni kökur og steiki þær á grind þannig að þær mótast eins og tacoskeljar. Síðan fylli ég þetta með hangikjöti, rauðkáli og mauki sem ég geri úr grænum baunum, koriander og chilli og svo er bara uppstúf yfir. Fyrstu viðbrögðin sem ég fékk eftir að ég póstaði þessu á facebook var að þetta væri viðbjóður en mér finnst þetta bara nokkuð gott," segir Andri.