Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Segir ástandið farsakennt og hvetur ráðherra til dáða

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hátt í 80 prósent þeirra sjúklinga sem nú eru á bráðamóttöku Landspítalans hafa lokið meðferð þar og bíða eftir að komast á aðrar deildir. Yfirlæknir segir ástandið farsakennt og hvetur nýjan heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, til að leysa úr vandanum.

Á bráðamóttöku Landspítala eru 36 rúm. Skömmu fyrir hádegi höfðu 28 sjúklingar þar lokið meðferð og biðu eftir að komast á aðrar deildir, að sögn Hjalta Más Björnssonar yfirlæknis á bráðamóttöku.

„Landspítali er ekki með mönnuð pláss til þess að veita þessu fólki legudeildarþjónustu á öðrum deildum. Og þetta gerir okkur erfitt eða ómögulegt að veita jafn góða og fljóta þjónustu og við viljum við þá fjölmörgu slösuðu og bráðveiku sem leita til okkar,“ segir Hjalti.

Hvað þýðir þetta, þegar einhver slasaður og bráðveikur leitar á bráðamóttöku? „Við viljum alls ekki að fólk sleppi því að koma sem þarf þess. En því miður veldur þetta fáránlega innlagnarástand því að fólk fær ekki jafn fljóta þjónustu og ætti að vera. Og einnig að við þurfum að veita mjög mörgum aðstoð á göngum deildarinnar. sem er algerlega óásættanlegt hvað varðar persónuvernd, sýkingavarnir og eðlilega þjónustu.“

Það er ekki hjúkrunarfræðingamönnun til að veita fólki þjónustuna. Það er til húsrými, það eru til rúm.

Smánarblettur á íslensku samfélagi

Hjalti segist ekki vita til þess að ástand sem þetta ríki á sjúkrahúsum í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. „Þetta er smánarblettur á íslensku samfélagi og þetta er eitthvað sem verður að breyta því ástandið er hreinlega farsakennt á Landspítalanum í dag. Og það er eitthvað sem við höfum fulla trú á að ný ríkisstjórn muni ekki láta viðgangast lengur,“ segir Hjalti.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að staða og hlutverk Landspítalans verði styrkt og sérstök áhersla lögð á uppbyggingu bráðamóttöku. Hjalti segir  ánægjulegt að slík áhersla sé lögð í sáttmálanum. „En við getum ekki sagt að við höfum séð þess nein merki um aðgerðir sem bæta stöðuna á bráðamóttöku.“

Er eitthvað sem þú vilt segja við nýjan heilbrigðisráðherra? „Já, ég vil bara hvetja nýjan heilbrigðisráðherra til að leysa úr stöðunni í innlagnarmálum þannig að við getum veitt fólki eðlilega bráðaþjónustu á bráðamóttöku Landspítala.“