Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Landspítali leitar nú lausna vegna læknisins af HSS

Mynd: Kristinn Magnússon / RÚV
Mál læknis, sem grunaður er um að hafa veitt fólki lífslokameðferð að tilefnislausu, er á meðal erfiðustu mála sem komið hafa upp á Landspítala. Til skoðunar er að afþakka vinnuframlag hans, en halda honum áfram á launaskrá. 

Læknirinn er grunaður um að hafa veitt fólki lífslokameðferð að tilefnislausu þegar hann starfaði á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hann var sviptur læknaleyfi í kjölfar rannsóknar embættis landlæknis, en fékk það aftur í vor. Í nóvember var það framlengt til eins árs og hann starfar nú undir eftirliti á bráðalyflækningadeild Landspítala, að tillögu embættis landlæknis. Andlát sex sjúklinga eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum og mál fimm annarra eru til meðferðar.

Auk þessa læknis hafa annar læknir og hjúkrunarfræðingur réttarstöðu sakborninga í málinu.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er litið á málið sem eitt það erfiðasta sem spítalinn hefur staðið frammi fyrir, um það er fundað nánast daglega og þar er rætt hvernig hlutast eigi til um málið og finna á því farsæla lausn. Meðal þess sem þar er rætt er hvort afþakka beri vinnuframlag læknisins og þá á hvaða hátt það væri gert.

Það sem gerir spítalanum erfitt fyrir, samkvæmt heimildum fréttastofu, er að þau læknisverk hans sem eru til rannsóknar voru gerð á annarri heilbrigðisstofnun og því hefur spítalinn ekki öll gögn um málið. Þá herma heimildir fréttastofu að nokkur ólga sé meðal starfsmanna Landspítala vegna starfa hans þar.

Fréttastofa hefur ítrekað reynt að ná tali af Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur starfandi forstjóra Landspítala undanfarna daga vegna málsins, en hún vildi ekki tjá sig um málið. Ekki náðist heldur í Markús Ingólf Eiríksson, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja þegar eftir því var leitað.