Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Grunsamleg góðgerðasamtök sendu út valgreiðsluseðla

13.12.2021 - 15:30
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook síða Vonarneista - RÚV
Meint góðgerðasamtök sem kalla sig Vonarneista hafa sent út valgreiðsluseðla til fólks að undanförnu. Litlar upplýsingar liggja fyrir um samtökin og starfsemi þeirra og ekki næst í forsvarsmenn þess.

DV. is greindi frá í morgun og fréttastofa hefur einnig fengið ábendingar um greiðsluseðlana. Á heimasíðu samtakanna er litlar sem engar upplýsingar um forsvarsmenn samtakanna að finna en þau gefa sig út fyrir að styðja við verkefni sem bæta hag heimilislausra á Íslandi. Kröfurnar sem sendar hafa verið út í heimabanka fólks hljóðar upp á tæpar 2.500 krónur. 

„Við viljum mæta fólki á þeim stöðum og í þeim aðstæðum sem það er í hverju sinni. Það er okkar von að hægt verði með tengslamyndun við þeirra verst settu í samfélaginu, koma auga á vandann stutt við, leiðbeint eða aðstoðað úrræði sem í boði eru. Stefnan er tekin á húsnæði sem hægt væri að hýsa alla starfsemina. Gistiskýli, mötuneyti, hlutastörf og svo margt fleyra sem þarfnast styrkja og fjáröflunarleiða. Við ætlum því að vera frjó og óhrædd við að prófa nýjar leiðir til þess.“ segir á heimasíðunni undir liðnum Um okkur. 

Á síðunni eru nokkrir óvirkir tenglar eins og til að mynda neyðarsími, hjálparlína, söfnun og tengslamyndun. Ekkert símanúmer er skráð eða heimilisfang hjá samtökunum. 

Á heimasíðu Skattsins er skráður stjórnarformaður samtakanna Fannar Daníel Guðmundsson sem jafnframt er skráður 100% eigandi félagsins. Ekki hefur náðst í hann í dag til að svara fyrir starfsemi félagsins.  Félagið var stofnað á seinasta ári og á Facebook síðu samtakanna hefur lítið sem ekkert verið sett inn undanfarið. 

Málið er til skoðunar hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en að öðru leyti segist hún ekki ætla að tjá sig um málið að svo stöddu.