Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Forseti Suður Afríku með COVID-19

epa09637941 South African president Cyril Ramaphosa speaks during the state memorial service for former president Frederik Willem de Klerk in Cape Town, South Africa, 12 December 2021. Former South African president and Nobel Peace laureate Frederik Willem de Klerk passed away on 11 November 2021 at the age of 85. A state memorial was held in his honour attended by South African president Cyril Ramaphosa amongst other dignitaries.  EPA-EFE/NIC BOTHMA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Cyril Ramaphosa, forseti Suður Afríku, greindist með COVID-19 á sunnudag. Skrifstofa forsetaembættisins greinir frá þessu. Forsetinn er í einangrun á heimili sínu þar sem honum er veitt meðferð við því sem sögð eru væg einkenni sjúkdómsins.

Í tilkynningu forsetaembættisins segir að Ramaphosa, sem er fullbólusettur, hafi tekið að finna fyrir veikindunum skömmu eftir að hann var viðstaddur minningarathöfn um Frederik Willem de Klerk, fyrrverandi forseta og varaforseta landsins og friðarverðlaunahafa Nóbels, á sunnudagsmorgun. Hann beri sig þó vel og læknar fylgist grannt með líðan hans. Ramaphosa verður í einangrun út vikuna og hefur falið varaforsetanum David Mabuza að hlaupa í skarðið á meðan.

„Áminning um mikilvægi bólusetningar“

Fram kemur að forsetinn hafi farið í fjölmörg COVID-19 próf í nýlegri ferð sinni til fjögurra ríkja Vestur-Afríku og einnig við heimkomuna til Jóhannesarborgar þann 8. desember. Öll hafi þau próf skilað neikvæðri niðurstöðu.

Í tilkynningunni er haft eftir Ramaphosa að smit hans sé þörf áminning til almennings um mikilvægi bólusetningar og þess að hafa varann á og gæta vel að smitvörnum. „Bólusetning er enn besta vörnin gegn alvarlegum veikindum og sjúkrahúsinnlögn,“ segir í tilkynningunni.

Omíkron-afbrigðið dreifir sér hratt

Hið margstökkbreytta omíkron-afbrigði kórónuveirunnar greindist fyrst í Suður-Afríku, þar sem það skaut upp kollinum í nóvember. Hefur það nú dreifst um víða veröld og valdið töluverðum usla og miklum áhyggjum, enda bráðsmitandi. Áhyggjurnar hafa þó frekar minnkað en aukist á síðustu dögum, þar sem ýmislegt þykir benda til að þrátt fyrir mikið smitnæmi valdi omíkron vægari einkennum en fyrri afbrigði, sérstaklega hjá bólusettum. Þetta er þó ekki fullkannað enn.