Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

MS braut gegn kennara sem sótti um kennslu í siðferði

12.12.2021 - 09:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Kærunefnd jafnréttismála telur að Menntaskólinn við Sund hafi mismunað umsækjendum eftir aldri þegar skólinn réð í stöðu kennara sem átti að sinna kennslu í siðferði og lýðræðisvitund. Skólinn sagði máli sínu til stuðnings að því fylgdi aukinn kostnaður að ráða kennara sem væri sextugur. Þá væri endurnýjun nauðsynleg þar sem meðalaldur kennara við skólann væri hár og vel yfir meðaltali framhaldsskóla í landinu.

Menntaskólinn við Sund auglýsti í fyrra eftir kennara í fullt starf til að sinna kennslu í lýðræðisvitund og siðferði. 21 sótti um og 16 af þeim voru með réttindi til kennslu í framhaldsskóla. Fjórir umsækjendur voru kallaðir í viðtal.

Einn umsækjandi kærði ráðninguna til kærunefndar jafnréttisnefndar en hann var ekki meðal þeirra sem kallaðir voru í viðtal. Hann taldi skólann hafa mismunað sér vegna aldurs.

Skólinn sagðist í svari sínu til nefndarinnar þurfa kennara sem gæti kennt 8 hópum í námsgreininni. Kennari sem ekki nyti sérstaks afsláttar vegna aldurs þyrfti að jafnaði að skila kennslu í 7,2 til 7,4 hópum á hverju skólaári til að fylla í fullt starf. Kennari, sem nyti kennsluafsláttar vegna 60 ára reglunnar, fyllti að jafnaði upp í kennsluskyldu sína með kennslu í 6 hópum. 

Skólinn hafði því reiknað út að ef kennari með kennsluafslætti hefði verið ráðinn þyrfti skólinn að greiða yfirvinnu fyrir 25 prósent kennslumagnsins. Þetta hefði þýtt 17 til 19 prósent viðbótarkostnað fyrir skólann og því hefði verið ákveðið að kalla ekki neinn kennara í viðtal sem nyti kennsluafsláttar.

Kennarinn, sem varð sextugur á síðasta ári, taldi að hann hefði ekki notið sannmælis vegna aldurs og slíkt væri ómálefnalegt. Enda hefði hann átt 10 ár eftir á vinnumarkaði sem væri langur tími í nútímasamfélagi. Þá gengi það ekki upp að stofnanir eins og framhaldsskólar gætu útilokað fólk frá því að fá starf með þeim rökum að það væri svo dýrt að ráða það vegna aldurs.

Hann benti á að stjórnendur skólans hefðu kastað fyrir róða hæfnisskilyrðum hans fyrir starfinu. Hann hefði margþætta kennslureynslu á öllum skólastigum til fjölda ára, væri með grunngráðu í félagsfræði frá HÍ, meistaragráðu í stjórnmálaheimspeki frá háskóla í Lundúnum og doktorsritgerð hans á lokastigi við HÍ væri viðamikil rannsókn á íslenskri stjórnmálamenningu sem fjalli í meginatriðum um „lýðræðisvitund og siðferði“.

Skólinn bætti við að það hefði falið í sér íþyngjandi kostnað að ráða kennara á þessum aldri því hann hefði orðið starfsmaður í 130 prósent starfi. Skólinn byggi við afar þrönga fjárhagsstöðu, ekki síst vegna aldurs og menntunarstigs kennara við skólann. Menntamálaráðuneytið fylgdist með rekstri skólans og búið væri að skera við nögl allan rekstrarkostnað. Reynt hefði verið að ráða yngri kennara til að bregðast við kerfislægum og kennslufræðilegum breytingum en oft hefði gefist lítið svigrúm til þess. Nú væru aðeins örfáir kennarar undir fertugu í skólanum.

Kærunefndin segir í úrskurði sínum að það liggi beinlínis fyrir að eldri umsækjendur hafi verið útilokaðir frá því að koma til greina í starfið, óháð hæfni þeirra að öðru leyti. Í því felist bein mismunun sem geti stundum verið réttlætanleg en það eigi ekki við ekki í þessu máli því skólanum hafi mistekist að færa málefnaleg rök fyrir þessari mismunun. Kveðið sé á um kennsluafslátt vegna aldurs í kjarasamningum sem skólinn sé bundinn af. Hann geti því ekki byggt ákvörðun sína á þröngri fjárhagsstöðu eða að ráðuneytið fylgist með rekstri skólans.

Var það því niðurstaða nefndarinnar að Menntaskólinn við Sund hefði brotið gegn jafnréttislögum.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV