Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fjölgun ráðuneyta mikil áherslubreyting

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Tillaga forsætisráðherra til þingsályktunartillögu um breytta skipan ráðuneyta var birt á vef Alþingis í gærkvöldi. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir fjölgun ráðuneyta viðsnúning frá þeirri áherslu sem var eftir hrun.

Fjölgar um tvö

Í þingsályktunartillögu forsætisráðherra er gerð grein fyrir þeim breytingum sem verða á uppbyggingu ráðuneyta og verkefnaskiptingu þeirra með nýrri ríkisstjórn.  Samkvæmt tillögunni er stefnt að því að breytingarnar taki gildi 1. febrúar en ráðuneytum fjölgar um tvö. 

Gunnar Helgi Kristinsson var gestur í Vikulokunum á Rás 1 nú fyrir fréttir ásamt þeim Bryndísi Haraldsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, og Friðriki Jónssyni, formanni BHM. 

Mikill viðsnúningur

Að sögn Gunnars Helga heldur nú áfram sú þróun að ráðuneytum fjölgar. Fyrir um 12 árum hafði það verið viðfangsefna þeirra sem höfðu áhuga á umbótum í stjórnarráðinu að fækka þeim niður í um það bil átta. Fjölgunin nú sé mikill viðsnúningur frá áherslunni sem var eftir hrunið og í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

„Að sumu leyti er það alveg rétt að það var lögð áhersla á að stjórnarráðið þyrfti að hafa ákveðið svigrúm til að bregðast við hlutum á ólíkum tíma. Á sama tíma urfa hlutirnir að vera í sæmilega föstum skorðum í öllum stofnunum. Annars virka ekki boðleiðir. Annars virka ekki samhæfing og samstarf. Ef þú ert stöðugt að hræra í pottinum er hætt við því að hlutir falli milli skers og bryggju eins og gerðist í hruninu,“ sagði Gunnar Helgi.

Þórgnýr Einar Albertsson