
Fiskveiðideila Breta og Frakka óleyst enn
Frönsk stjórnvöld segja að samkvæmt fyrirliggjandi Brexit-samningi eigi enn eftir að veita 104 frönskum bátum leyfi til veiða við Bretland og Ermarsundseyjar. Unnið hefur verið að því hörðum höndum undanfarna daga og vikur að ná samkomulagi og markmiðið var að ná saman í gærkvöld.
Samkvæmt skilmálum útgöngusamningsins mega evrópsk skip veiða í breskri lögsögu ef þau geta sýnt fram á að þau hafi veitt þar fyrir útgöngu. Frakkar hafa kvartað yfir því að Bretar neiti nú smærri skipum sem ekki eru útbúin GPS-sendum um leyfi og sömuleiðis bátum sem komu í stað eldri báta franska fiskveiðiflotans.
Segir Breta ekki standa við orð sín
Bretar hafna því alfarið að þeir séu að vanrækja skyldur sínar og gefa lítið fyrir lokafrest Frakka til að veita veiðileyfin. „Við höfum aldrei sett okkur neinn frest. Ég veit að Evrópusambandið setti frest en við vinnum ekki eftir þeim fyrirmælum,“ sagði Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, við fréttamenn í gær.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti var ómyrkur í máli á blaðamannafundi í gær. „Vandinn er sá að bresk stjórnvöld gera ekki það sem þau segjast ætla að gera,“ sagði forsetinn.
Frakkar sögðust ætla að biðja framkvæmdastjórn ESB um að fara með málið fyrir dómstóla ef farsæl lausn fyndist ekki fyrir tilskilinn frest og má vænta frekari yfirlýsinga þar að lútandi nú þegar sá frestur er út runninn.