„Ég held ég hafi gengið fram af sjálfum mér“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég held ég hafi gengið fram af sjálfum mér“

11.12.2021 - 10:56

Höfundar

„Það var umdeilt á sínum tíma hvort Siglufjörður væri lastabæli og bara Sódóma Íslands eða hvort það væri þannig að hér fæddist aldrei óskilgetið barn eins og þeir sögðu Siglfirðingar sjálfir,“ segir Hallgrímur Helgason um skrautlegar lýsingar á lostafullu lífi Gests í Sextíu kílóum af kjaftshöggum.

Stórskáldið Hallgrímur Helgason sendi fyrir jólin frá sér skáldsöguna Sextíu kíló af kjaftshöggum sem er sjálfstætt framhald verðlaunaskáldsögunnar Sextíu kíló af sólskini. Hallgrímur hlaut tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir framhaldið en fyrri bókin hreppti sömu verðlaun þremur árum fyrr. Sagan hefst á Siglufirði árið 1906 þar sem Íslendingar eru að fikra sig úr torfgöngum inn í raflýstar stofur. Höfundur dvaldi sjálfur um hávetur á Siglufirði við skrif á bókinni og þar hitti hann líka Egil Helgason til að ræða söguna.

Fjórar vikur af norðanstórhríð

„Ég var hér fyrr á þessu ári, allan janúar, og ég fékk þetta alveg í æð,“ segir hann um dvölina. „Það voru fjórar vikur af norðanstórhríð og ég var eiginlega bara í kraftgallanum allan þann tíma.“ Hann segir að hríðin hafi komið sér vel fyrir sköpunarkraftinn. „Alla vega fannst mér ég öðlast meira sjálfstraust eftir að hafa verið hér um hávetur. Ég hef oft verið hér í skemmri tíma en þetta var samfelld vist og ég skrifaði mikið.“

Lasta- eða englabæli

Það er mikil náttúra í bókinni, bæði í firðinum en líka innra með söguhetjunni Gesti og fólki í kringum hann. „Já. Ég þurfti svolítið að ákveða hversu mikið lostalíf þetta væri,“ segir Hallgrímur. „Þetta var mikið umdeilt á sínum tíma, framan af öldinni, hvort Siglufjörður væri lastabæli og bara Sódóma Íslands eða hvort það væri þannig að hér fæddist aldrei óskilgetið barn eins og þeir sögðu Siglfirðingar sjálfir.“ Hallgrímur tók afstöðu til málsins og jafnvel þannig að honum blöskraði sjálfum á köflum. „Svo fer maður að skrifa og það kemur einhver niðurstaða út úr því. Ég held ég hafi gengið fram af mér á einum stað en ég lét það standa.“

Íslendingar skildu ekkert hvað Norðmenn þurftu að slást

Titillinn á bókinni er viðeigandi því það er mikið slegist og flogist á. „Þetta er hinn svokallaði Norðmannatími, þegar Norðmennirnir voru allt í öllu hér áður en Íslendingar tóku yfir síldarbransann,“ segir Hallgrímur sem lýsir Norðmönnunum sem geysilegum slagsmálahundum. „Íslendingar skildu ekkert í þessu. Maður sér það aftur og aftur í heimildunum hvað Norðmennirnir þurftu að slást.“

Sjálfur lýsir hann sögunni sem hrærigraut af persónum, kómík, dramatík, konum, mönnum, börnum og gamalmennum. „Þarna er þjóðlegur fróðleikur, nýjungagirni og allt í bland.“

Draumur um betra líf annars staðar

Gestur í bókinni er á sinn hátt fulltrúi þjóðarinnar og nafngiftin á sér nokkurn aðdraganda. „Ég fann það á botni rauðvínsglass á Indlandi. Ég byrjaði að skrifa fyrstu bókina þar og nafnið Gestur fannst mér táknrænt fyrir hlutskipti Íslendingsins því við vitum aldrei hvort við séum gestir eða hvort við ætlum að fara héðan eða vera hérna áfram,“ segir Hallgrímur. „Ég tala oft um það að fólk eigi sér alltaf draum um annað líf annars staðar; Enginn veit hvar við dönsum næstu jól. Það er alltaf innifalinn draumur um betra líf annars staðar.“

Blautlegar vísur

Hinn skáldmælti Lási í sögunni er að hluta byggður á Páli Helgasyni sem var bæjarskáld Siglufjarðar. „Ég fattaði það nú bara þegar ég var búinn með fyrstu bókina að ég var kannski svolítið undir áhrifum frá honum. Hann var alltaf að kasta fram skemmtilegum vísum sem voru margar blautlegar,“ segir hann.

Konur fara misilla út úr sögunni

Hafsteinn hreppstjóri er byggður á Hafliða Guðmundssyni, sem Hallgrímur lýsir sem friðarins manni sem tókst að vera eina yfirvaldið og að hafa hemil á sótdrukknum slagsmálahundunum. Konum bregður einnig fyrir í verkinu og þær birtast meðal annars sem þolendur ofbeldis og nauðgunar. Hallgrímur segir að það séu ekki til margar heimildir um konurnar frá þessum tíma, „svo ég þurfti meira og minna að búa þær til og þær fara misilla út úr sögunni eins og konur gerðu á þessum tíma.“

Nauðganir varla til í umræðunni

Hann rakst í heimildavinnu sinni á litla frétt um sextán ára stúlku sem fannst í fjörunni og hálfu ári síðar fannst önnur stúlka, átján ára, á norðurströndinni. En þessir líkfundir voru ekki rannsakaðir. „Morð eru ekki rannsökuð, nauðganir voru ekki rannsakaðar og varla til í umræðunni á þessum tíma. Ég var svolítið að draga fram þessa hörðu tilvist sem konur bjuggu við,“ segir hann en bætir við að þetta hafi blessunarlega breyst. „Þetta er mikið söguefni í nútímanum og hefur sótt fram á síðustu árum. Fólk er loksins að fjalla um þetta í skáldsögum og kvikmyndum og það er alveg frábært. Auðvitað er maður undir áhrifum af því.“

Allir ættaðir frá Siglufirði

Eftir að Sextíu kíló af sólskini kom út hafa óvenjumargir komið að máli við Hallgrím og sagst þekkja margt í bókinni enda sjálfir frá Siglufirði. „Ég hef rekið mig á það í gegnum þessar bækur að meira en helmingur landsmanna er ættaður frá Siglufirði, virðist vera. Markaðslega séð var því rosa sniðugt að skrifa um þennan stað,“ segir hann. „Hér var mikill pottur og manni finnst maður kominn nálægt uppsprettunni liggur við, að hér hafi þjóðin bara orðið til.“

Stórkostleg versksmiðja

Á eyrinni risu verksmiðjur og meðal annars síldarverksmiðjan sem þótti afar glæsileg. „Hún blasti við fólkinu sem var að glíma við rafmagnsleysi í sínum torfkofum og þarna var höll, upplýst rafljósum og stórum skorsteini og reykurinn rauk upp. Fólk var bara heillað,“ segir Hallgrímur. „Þetta var á þeim tíma sem verksmiðjur voru bara fallegar. Stórkostlegar.“

Sagan hverfist að miklu leyti um verksmiðjuna og þar fær Gestur vinnu. Hún fékk hins vegar ekki að standa lengi því hún gjöreyðilagðist í snjóflóði. „Þetta var rammgert mannvirki úr múrsteini og fólki trúði því ekki að snjóflóð gæti tekið hana með sér en það gerðist og við sjáum bara stöplana hinum megin. Rústir einar,“ segir hann. „Verksmiðjan stóð ekki lengi en var stórglæsileg og setti mark sitt á staðinn.“

Nýtur sín í sögunni

Það er ljóst að Hallgrímur ætlar sér að skrifa þriðja bindið um Gest og Segulfjörð. Hann er alls ekki tilbúinn að segja skilið við þennan heim enn. „Mér finnst ég njóta mín í þessari sögu,“ segir hann. „Í sögulegri skáldsögu myndast önnur dýpt. Þú beinir kastljósinu úr nútímanum niður í fortíðina og þar er spegill sem kastar þér í nútímanum. Svo þú ert alltaf að skrifa úr nútímanum inn í fortíðina en kommentar á þína samtíð líka. Varpar ljósi á sögu þjóðarinnar og það myndast annars konar dýpt en í venjulegum skáldsögum.“

Egill Helgason ræddi við Hallgrím Helgason í Kiljunni.