Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Vandræðaástand í Suður-Kóreu vegna COVID-19

10.12.2021 - 16:06
epa09633348 A health worker (R) collects a swab sample from a man at a makeshift COVID-19 testing station in Seoul, South Korea, 10 December 2021. The Korea Disease Control and Prevention Agency (KDCA) said on 10 December that the number of coronavirus infection cases rose by 7,022, raising the total caseload to over 503,000, including 63 Omicron variant cases.  EPA-EFE/JEON HEON-KYUN
 Mynd: EPA-EFE
Kórónuveirusmitum í Suður-Kóreu hefur fjölgað um meira en sjö þúsund á dag síðustu þrjá sólarhringa. Ástandið hefur ekki verið verra frá því að farsóttin braust út síðastliðinn vetur. Sjúkrahús eru yfirfull og starfsfólk í heilbrigðisþjónustu er sagt vera að örmagnast.

Stjórnvöld eru sökuð um að hafa valdið því að ástandið fer stöðugt versnandi. Þau slökuðu umtalsvert á reglum um sóttvarnir í nóvemberbyrjun og kinokuðu sér við að herða þær að nýju þegar smitum tók að fjölga.

Stjórnendum sjúkrahúsa víðs vegar um Suður-Kóreu hefur verið skipað að fjölga sjúkrarúmum um tvö þúsund fyrir COVID-19 sjúklinga. Með því móti á að létta á álagi á sjúkrahúsum í höfuðborginni Seoul og þar um kring, þar sem ástandið er verst. Þar eru níu af hverjum tíu rúmum á gjörgæsludeildum upptekin.

Heilbrigðisyfirvöld hafa gripið til þess ráðs að hlúa að þeim heima sem veikjast lítillega eða miðlungi mikið af COVID-19. Fjöldi látinna af völdum sjúkdómsins er kominn yfir 4.300 í Suður-Kóreu eftir að tilkynnt var um 53 dauðsföll síðastliðinn sólarhring. Rúmlega 503 þúsund landsmanna hafa smitast af kórónuveirunni til þessa.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV