Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Meira einmana og lengri skjátími

09.12.2021 - 17:53
Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Skjátími barna jókst og einnig vanlíðan framhaldsskólanema. Daglegt líf fatlaðs fólks raskaðist töluvert og eldra fólk varð meira einmana Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu um niðurstöður lýðheilsumats á óbeinum áhrifum COVID-19 á heilsu og líðan Reykvíkinga.

Skoðað var hvaða áhrif takmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins í fyrra höfðu á heilsu og líðan íbúa í Reykjavík. Meðal þess sem þar kemur fram er að grunnskólanemendum þótti námið minna skemmtilegt, skjátími ungra barna jókst og þau hreyfðu sig minna. Hugrún Snorradóttir lýðheilsufræðingur er höfundur skýrslunnar.

„Það er breyting hjá eiginlega öllum hópum í hreyfingu og mataræði; það minnkar grænmetis- og ávaxtaneysla hjá börnum og fullorðnum. Ölvunardrykkja minnkar líka og svo sjáum við hjá ákveðnum hópum meiri vanlíðan,“ segir Hugrún.

„Svo var mjög áhugavert að sjá að það var mismunandi upplífun kynjanna, fullorðinna karla og kvenna. Konur voru meira einmana og sumir hópar kvenna minna hamingjusamir en áður. Þær líka hreyfðu sig minna en það fannst ekki þetta hjá körlum.“

Reykvíkingar drukku sig sjaldnar ölvaða og mikið dró úr félagslegum samskiptum eldri borgara. Talsverð breyting varð á ýmsum þjónustuúrræðum fyrir fatlað fólk sem hafði áhrif á líðan þess og fólk af erlendum uppruna hafði oft takmarkaðar upplýsingar um stöðu faraldursins.

Í skýrslunni kemur fram að opinberar aðgerðir hafi dregið úr áhrifum faraldursins, eins og til dæmis að halda grunn- og leikskólum opnum en fyllsta ástæða sé til að fylgjast með stöðu framhaldsskólanema, einmanaleiki þeirra hafi aukist og þeim gangi nú verr í námi. 

„Það eru framhaldsskólanemar sem maður hefur mestar áhyggjur af,“ segir Hugrún. 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir