Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Mark í París verður jólagjöfin í ár

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Mark í París verður jólagjöfin í ár

09.12.2021 - 10:48
Ásmundur Arnarsson, þjálfari kvennaliðs Breiðabliks, segir að jólagjöf liðsins í ár verði að skora mark í síðasta leiknum í Meistaradeildinni gegn PSG í næstu viku. Breiðablik tapaði 3-0 fyrir Real Madrid í gærkvöld í síðasta heimaleik liðsins í keppninni.

Ásmundur segir það svekkelsi þegar leikirnir tveir við Real Madrid eru bornir saman að ekki hafi fengist meira úr leiknum í gærkvöld. Þá segir hann svekkjandi að fá á sig mark eftir fast leikatriði og að hafa ekki náð að setja að minnsta kosti eitt mark, en Blikakonum hefur enn ekki tekist að skora mark í riðlakeppninni.  

Síðasti leikur Blika í keppninni er gegn liðið PSG í París í næstu viku. Ásmundur segir það ljóst að andstæðingarnir séu geysilega öflugir en markmiðin verða þó svipuð. „Ég treysti því og trúi að við fáum allavega fyrsta markið okkar úti í París, rétt fyrir jólin. Það verður jólagjöfin í ár.“

Kristín Árnadóttir, leikmaður liðsins, tekur í sama streng og minnir á að síðast þegar liðið spilaði í París, fyrir þremur árum síðan, hafi því vissulega tekist að skora mark. „Við ætlum okkur að skora mark og fá stig jafnvel,“ bætir Kristín við. Hún segir það þó meira en að segja það það sem PSG sé eina liðið í riðlinum sem ekki hafi enn fengið á sig mark.