Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Málsvörn Eiríks Arnar

Mynd: RÚV / RÚV

Málsvörn Eiríks Arnar

09.12.2021 - 12:43

Höfundar

„Undir lok bókarinnar erum við komin svo djúpt ofan í naflann á Eiríki Erni að ég er ekki viss um að við komumst nokkurn tímann út aftur,“ segir Gréta Sigríður Einarsdóttir, gagnrýnandi, um bók Eiríks Arnar Norðdahl, Einlægur Önd.

Gréta Sigríður Einarsdóttir skrifar:

Það er mikið talað um þjóðfélagsumræðuna. Í skoðanapistlum og á samfélagsmiðlum fer fram umræða um allt milli himins og jarðar, en ekki síst er rætt hvernig við tölum um hlutina: hvaða orð við notum eða notum ekki, hverjir megi segja hitt og þetta og hvað fólk meini raunverulega þegar það segir það sem þau segja. 

Eiríkur Örn Norðdahl, höfundur Illsku og fyrrum þekktur sem Nýhil skáld, gaf nýlega út bók sem ber titilinn Einlægur Önd og fjallar um Eirík Örn Norðdahl, höfund Illsku og fyrrum Nýhil skáld. Sögupersónan Eiríkur er smánaður rithöfundur sem er að vinna að bók um smánaðan rithöfund sem er að vinna að bók.Undir lok bókarinnar erum við komin svo djúpt ofan í naflann á Eiríki Erni að ég er ekki viss um að við komumst nokkurn tímann út aftur. 

Sagan samanstendur af frásögninni af Eiríki Erni, brotum úr tölvupóstum og köflum úr handriti sögupersónunnar sem einnig inniheldur brot úr handriti sögupersónunnar. Bókin, handritið, og handritið í handritinu fjallar allt um samfélagslegar refsingar og stimplar sig kyrfilega inn í umræður dagsins í dag um það sem þýtt hefur verið sem slaufunarmenning en er á ensku kallað cancel culture. Hvenær brýtur maður af sér í augum samfélagsins, hvernig er manni refsað fyrir það, hvernig er hægt að biðjast afsökunar og hvað gerist eftir afsökunarbeiðnina.

Ástæðan fyrir að dómstóll götunnar er persónunni Eiríki Erni svona hugleikinn er sú að líkt og höfundurinn Eiríkur fékk hann að reyna á eigin skinni að verða á milli tannanna á fólki. Hann sendi frá sér leikritið og skáldsöguna Hans Blær fyrir nokkrum árum, við lítinn fögnuð baráttufólks fyrir réttindum hinsegin fólks. Eiríkur hlaut meðal annars gagnrýni fyrir að skrifa kynsegin persónu þar sem hann tilheyri ekki þeirra hópi sjálfur. Hann virðist hafa tekið þessari gagnrýni sem áskorun því Einlægur Önd fjallar um hugðarefni og lífsreynslu sem einskorðast við snemmmiðaldra karlkyns rithöfunda. 

Persónan í bókinni tók verr á aðstæðum en höfundurinn. Hegðun hans þegar hann var sakaður um fordóma og yfirgang var ekki til eftirbreytni og í upphafi bókarinnar ber persónan Eiríkur sig aumlega, og leitar að betri líðan hjá hjásvæfum, sálfræðingnum dr Hjörvari Hafliðasyni og á botninum á bjórglösum. Honum er umræðan um bók hans í fersku minni en þarf reglulega að minna aðra á hvað hann sé umdeildur. Þó berast honum reglulega nafnlausar sendingar festar á múrsteina inn um rúðuna hjá sér svo þrátt fyrir að aðrir séu búnir að gleyma atvikinu veldur það honum enn höfuðverk. 

Stór hluti sögunnar gerist í handriti Eiríks Arnar að nýju verki. Í hliðstæða heiminum Arbitreu, leikur höfundur sér með að útfæra bókstaflega þær félagslegu refsingar sem slaufunarmenningin gengur út á. Hinar óskrifuðu reglur samfélagsins sem við lútum eru þar gerðar áþreifanlegar og almenningur sér sjálfur um að útdeila refsingum fyrir ósæmilega hegðun. Arbitrea er fyrirmyndarland fyrir fyrirmyndarfólk en eins og höfundur bendir á getur verið erfitt að vera gallaður maður í slíkum heimi sem skortir umburðarlyndi og samkennd. Felix Ibaba er rithöfundur sem braut reglurnar og þarf að una við það að vera í sífellu áminntur um þungbært atvikið. Hann er svo sjálfur að skrifa bók um glæpi og refsingar.  

Sögupersónan Eiríkur lofar stanslaust upp í ermina á sér, á engan pening, drekkur ótæpilega og gerir plön þegar hann drekkur sem hann neyðist svo til að standa við þegar rennur af honum, líkt og Hemingway hvatti til. Hann er líka uppfullur af sjálfum sér, svo sjálfhverfur raunar að um vænisýki er að ræða og hann grunar alla í kringum sig um að vera að vinna gegn sér. Hann fær lausnina sem hann þráir hvorki hjá sálfræðingnum sínum né almannatenglinum. Sálfræðingurinn hans segir honum við hvert tækifæri að hætta að væla og undir lok bókarinnar er ekki laust við að lesandi vilji taka undir. Hann er ekki eina birtingarmynd höfundar í verkinu því kúluhatturinn sem er einkennisklæðnaður höfundar birtist víða og á mörgum kollum. Þrátt fyrir augljósa vanlíðan sögupersónunnar verst hann öllum tilraunum til að takast á við vandamál sín og einbeitir sér frekar að skáldskapnum. Höfundur er of eftirlátssamur við persónuna sína sem þarf aldrei að kafa niður fyrir sjálfsvorkunnina svo að úrvinnslan í bókinni er þunn.  

Undir seinni hluta bókarinnar tekur Einlægur Önd svo enn annan snúning á vísanir í sjálfan sig og gerist sinn eigin bókmenntarýnir. Hann gagnrýnir höfunda sem skrifa eingöngu um sjálfa sig og mörk lyginnar og sannleikans í skáldskap. Hann hæðist góðlátlega að öðrum höfundum sem skrifa bara um sjálfa sig og veltir fyrir sér dýpt naflanna sem ljóðin spretta upp úr. Glottandi út í annað bendir höfundur á helstu bresti bókarinnar, líkt og hann segi: er ekki fáránlegt að vera svo sjálfhverfur að skrifa heila skáldsögu um að fólk kunni ekki að meta bókina þína? Retoríkin í bókinni virkaði þveröfugt á mig. Mér var þvert í skapi að kafa svo djúpt ofan í tilfinningar höfundar um bók sem ég las ekki og skáldið í bókinni fékk ekki vorkunn mína hversu mikið sem það bað um hana. Það fór í taugarnar á mér þegar sjálfmeðvitaður textinn reyndi í sífellu að stjórna lestrinum. Gallarnir eru enn til staðar þó höfundur bendi á þá og slái þessu öllu upp í grín. 

Allir sem hafa nokkurn tímann tekið þátt í rökræðum á internetinu ættu að vita að um leið og þær fara að fjarlægjast kjarna málsins og fjalla þess í stað um viðbrögðin og hvað hver sagði og hvenær er löngu kominn tími til að logga sig út. Lesendur þurfa að hafa háan þröskuld fyrir sjálfsvorkunn enda er Einlægur Önd málsvörn Eiríks Arnar í löngu fyrndum skandal. Hún tæpir þó líka á mörgum punktum í samfélagsumræðu síðustu ára og bendir á hvað það getur verið þungbært að verða fyrir linnulausu grjótkasti hinna syndlausu. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Fullt af fólki að segja mér að halda kjafti“

Bókmenntir

„Mér fannst ég þyrfti að fá að vera með“

Bókmenntir

Óþægilegt að sanna að ég sé góð mannvera