Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Frestaði fyrirlestri Ásgeirs eftir ásökun um ritstuld

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aðstandendur Miðaldastofu ákváðu að fresta fyrirlestri sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri átti að halda á þeirra vegum síðdegis í dag. Ákvörðunin var tekin eftir að Bergsveinn Birgisson, fræðimaður og rithöfundur, sakaði Ásgeir um ritstuld og sagði seðlabankastjóra hafa stuðst við sitt verk, Leitina að svarta víkingnum, í bókinni Eyjan hans Ingólfs án þess að geta þess. Ásgeir hefur vísað þeim ásökunum á bug.

Miðaldastofa hafði auglýst fyrirlesturinn Efnahagsmál á landnámsöld sem átti að fara fram klukkan hálf fimm í dag. Fyrirlesturinn er um sama efni og bók Ásgeirs, Eyjan hans Ingólfs, sem er nýkomin út. Í morgun var send út tilkynning um að fyrirlestrinum hefði verið frestað en engin skýring gefin.

Haraldur Bernharðsson, forstöðumaður Miðaldastofu, segir að þar sem fyrirlesara hafi verið gefið að sök að fara heldur frjálslega með hugmyndir og ályktanir annars höfundar hafi aðstandendum Miðaldastofu þótt eðlilegt að hann fengi svigrúm til að svara þeim ásökunum. Því hefði verið ákveðið að gefa fyrirlesara svigrúm til að bregðast við ásökunum áður en fyrirlesturinn færi fram. Því hafi honum nú verið frestað.

Haraldur segir að Miðaldastofa ætli ekki að setjast í dómarasæti vegna ásakana í garð Ásgeirs. 

Akademísk vinnubrögð eru í hávegum höfð innan Háskóla Íslands, segir Haraldur. Hann minnist þess ekki að fyrirlestri á vegum Miðaldastofu hafi áður verið frestað vegna ásakana eins og þeirra sem Bergsveinn bar á Ásgeir í gær.