Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ákærðir fyrir að kveikja risavaxinn skógareld

epa09439549 A firefighter hoses down flames of the Caldor Fire to prevent it from reaching the highway in Meyers, California, USA, 31 August 2021. The fire has burned over 191,000 acres, destroyed more than 700 structures and prompted authorities to order the evacuation of the city of South Lake Tahoe.  EPA-EFE/CHRISTIAN MONTERROSA
 Mynd: epa
Feðgar á sjötugs- og fertugsaldri voru í gær handteknir og þeim birt ákæra fyrir að hafa með vítaverðu gáleysi kveikt ógurlegan skógareld sem sveið rúmlega 800 ferkílómetra skóg- og gróðurlendis í norðanverðri Kaliforníu í sumar sem leið.

Þeir David og Travis Smith eru sakaðir um að hafa kveikt skógareldinn sem fékk nafnið Caldor-eldurinn þann 14. ágúst í sumar, á vinsælu og skógi vöxnu ferðamannasvæði við Tahoe-stöðuvatnið, nærri ríkjamörkum Kaliforníu og Nevada.

Það tók slökkvilið 67 daga að koma böndum á eldinn, sem eyddi ekki einungis milljónum trjáa heldur líka yfir 1.000 byggingum af öllu tagi áður en yfir lauk. Mikil mildi þótti að enginn fórst í hamförunum, en fimm slösuðust.

Í yfirlýsingu frá embætti saksóknara í El Dorado-sýslu, sem fer með málið á hendur feðgunum, segir að þeir hafi verið ákærðir fyrir íkveikju af vítaverðu skeytingarleysi og sæti gæsluvarðhaldi.