Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Aðkoma Alþingis skýlaus krafa

Mynd: Alþingi / Alþingi
Heilbrigðisráðherra segir ljóst að kórónuveirufaraldurinn sé afar næmur fyrir öllum aðgerðum sem stjórnvöld boði. Þingmenn gagnrýndu harðlega litla aðkomu Alþingis að ákvörðunum stjórnvalda, það ætti að vera skýlaus krafa þingmanna að fjalla um þær aðgerðir.

Nýr heilbrigðisráðherra flutti Alþingi skýrslu í dag um sóttvarnaaðgerðir og horfur framundan í samræmi við sóttvarnalög sem þingið samþykkti í fyrra.

Ráðherra fór yfir tímalínu aðgerða og sagði að í febrúar eða mars á næsta ári ættu allir að hafa fengið örvunarbólusetningu.

„Mér finnst svolítið gott að horfa á þessa tímalínu út frá þessum aðgerðum hvað í raun og veru faraldurinn er næmur ef ég get orðað það þannig fyrir þessum aðgerðum og ef maður horfir á smittölur,“ sagði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. 

Í lok umræðunnar sagði ráðherra að það væri alltaf í forgangi að verja líf og heilsu og ekki kæmi til greina að skipta þjóðinni upp í hópa.

Þingmenn styðja í stórum dráttum almennt aðgerðir og bólusetningar en gerðu hins vegar margvíslegar athugasemdir við vinnubrögð stjórnvalda og mótvægisaðgerðir og margir segja mörgum siðferðislegum spurningum ósvarað.

Þingmenn vilja vita hvert planið framundan sé og gagnrýna harðlega langt hlé á þingfundum og þar með enga aðkomu Alþingis. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður talaði um réttindi og skyldur þingsins.

„Og það er ekki bara réttur þingsins að hafa eftirlit með ríkisstjórninni, það er skylda þingsins að fara með þetta hlutverk og þess vegna er gagnrýnivert að þegar ný bylgja fer af stað og við sjáum sóttvarnaaðgerðirnar taka við sér að nýju að þá hafi eftirlitsaðilinn ekki verið að störfum.“

Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði það hljóta að vera skýlaus krafa þeirra sem kjörin eru til Alþingis af þjóðinni að fá að fjalla um þær takmarkanir.