Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

156 smit í gær - Tvenns konar bóluefni virka vel saman

09.12.2021 - 10:55
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
156 greindust með kórónuveiruna í gær, þar af 149 innanlands. 83 þeirra sem smituðust innanlands eru óbólusettir. Nokkuð færri sýni voru tekin í gær en undanfarna daga, eða um 3.500 talsins. Rannsóknir á bóluefnum gegn COVID-19 sýna að bólusetning með tvenns konar bóluefnum framkalli mótefni gegn kórónuveirunni í nægilegu magni.

Sömu rannsóknir sýna einnig að notkun á ólíkum bóluefnum örvar T-frumu svörun í meira mæli en ef sama bóluefni er notað. Þetta kemur fram í rannsókn Lyfjastofnunar Evrópu og Sóttvarnarstofnunar Evrópu.
Tvenns konar bóluefni eru notuð til bólusetninga gegn COVID-19. Annars vegar eru veiruferju-bóluefni á borð við Janssen og AstraZeneca, og hins vegar mRNA bóluefni frá Pfizer-BioNTech og Moderna. Í fréttatilkynningu frá Lyfjastofnun segir að notkun á mismunandi bóluefnum geti aukið sveigjanleika í bólusetningarherferðum, meðal annars til að lágmarka áhrif skorts á ákveðnu bóluefni.

Rannsóknirnar ná aðallega yfir bólusetningar þar sem fyrri skammtur hefur verið gefinn með veiruferju-bóluefni og sá síðari og örvunarskammturinn með mRNA bóluefni. Notkun á veiruferju-bóluefni í seinni skammti eða notkun á tveimur mismunandi mRNA bóluefnum hefur ekki verið rannsakað jafn mikið segir í tilkynningunni.

19 liggja nú á Landspítala vegna COVID-19, þar af fimm á gjörgæslu. Fjórir þeirra sem eru á gjörgæslu eru í öndunarvél. 21 var á Landspítala í gær. 1.407 eru nú í COVID-göngudeild Landspítala, þar af 461 barn.

Tæplega 54 prósent þeirra sem greindust í gær voru í sóttkví þegar þeir greindust, eða 80 talsins. Flestir þeirra sem nú eru í einangrun eru 39 ára eða yngri. Rétt rúmlega hundrað manns yfir 60 ára aldri eru í einangrun, en nærri 400 börn á aldrinum 12 ára og yngri. Nýgengi smita á hverja 100 þúsund íbúa síðustu 14 daga fór örlítið upp á við eftir tölur gærdagsins, eru nú 448,1 á hverja 100 þúsund en voru um 444 daginn áður.

 
Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV