Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Of mikil gírun helsta ógnin

ásgeir jónsson seðlabankastjóri eftir vaxtaákvörðunarfund 25. ágúst
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Helsta ógn við fjármálastöðugleika er tilhneiging fólks til að nýta verðhækkanir á húsnæði og hlutabréfum til enn frekari skuldsetningar. Fjármálastöðugleikanefnd birti í morgun mat sitt á stöðu fjármálakerfisins.

Að mati fjármálastöðugleikanefndar stendur fjármálakerfið traustum fótum og hefur staða bankanna til að mynda ekki verið sterkari frá endurreisn þeirra eftir bankahrun. Við upphaf faraldursins var gert ráð fyrir miklum útlánatöpum, einkum í ferðaþjónustu. Þau reyndust mun minni en óttast var og stuðningslán stjórnvalda með ríkisábyrgð drógu enn fremur úr högginu, en um þúsund slík lán voru veitt.

Hins vegar telur nefndin að kerfisáhætta fari vaxandi samhliða hækkandi húsnæðis- og hlutabréfaverði. Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, segir hættuna felast í því að fólk noti hraða eignamyndun til að gíra sig enn frekar. „Það er alltaf ákveðin hætta á því að þessi eign verði notuð sem veð í lántökum og nýtt til þess að taka fjárhagslega áhættu. Enn sem komið er þá teljum við að þetta sé á ágætum stað en við höfum áhyggjur af því vegna þess að allar fjármálabólur byrja með þessum hætti, mikil hækkun á eignaverði og hún er gíruð upp.“

Seðlabankinn hefur ítrekað gripið til aðgerða til að kæla húsnæðismarkaðinn, til að mynda með hámarki á veðsetningu og greiðslubyrði lána og endurteknum stýrivaxtahækkunum. Ásgeir segist sjá vísbendingar um að aðgerðunum hafi tekist að stöðva hækkanir í ákveðnum eignaflokkum og að merki þess sjáist í verðbólgutölum næstu mánaða. Hins vegar er erfiðara að hafa stjórn á hlutabréfamarkaði. „En í sjálfu sér er þetta markaður þar sem að það eru fjárfestar sem verða að taka ábyrgð á sjálfum sér. Við erum ekki að taka ábyrgð á þeim sem kaupa hlutabréf.“

Magnús Geir Eyjólfsson