Læknirinn sagði ekki ár heldur mánuðir

Mynd: Óskar Finnsson / Aðsend

Læknirinn sagði ekki ár heldur mánuðir

08.12.2021 - 09:34

Höfundar

„Það hvarflaði ekki að mér í eina mínútu að þetta væri illkynja, komið á fjórða stig og ég gæti farið að telja niður,“ segir Óskar Finnsson veitingamaður sem fékk skelfilegar fréttir í byrjun árs 2020. Hann heldur í lífsgleðina a þrátt fyrir erfið veikindi og rekur veitingastaðinn Finnsson með fjölskyldunni sem veitir honum kraft og styrk.

Óskar Finnsson rekur veitingastaðinn Finnsson í Kringlunni sem hefur vakið mikla lukku síðan hann opnaði í vor. Óskar er mikill matgæðingur, kokkur af guðs náð sem nýtur sín best með þeim sem honum þykir vænt um. Hann greindist með alvarlegt fjórða stigs krabbamein á síðasta ári og segist vilja verja þeim tíma sem hann á eftir ólifaðan í faðmi vina og fjölskyldu með bros á vör. Hann ræddi við Hrafnhildi Halldórsdóttur í Sunnudagssögum á Rás 2 um lífsstarfið, fjölskylduna ástríðuna fyrir matargerð, búsetu í Bretlandi og á Spáni og uppvextinum á Seyðisfirði. Hann ræddi veitingaflóru landsins, árin á Argentínu og því hvernig hann berst af miklu æðruleysi við banvænan sjúkdóm.

Seyðisfjörður er algjör paradís

Óskar er alinn upp á Seyðisfirði þar til hann bjó til sextán ára aldurs þegar hann flutti suður til að læra matreiðslu. „Seyðisfjörður er algjör paradís, sennilega einn af fallegustu stöðum sem þú getur fundið á landinu,“ segir Óskar stoltur. Hann varði miklum tíma með móður sinni í eldhúsinu í uppvextinum og það þurfti stundum að sýna kænsku í eldamennskunni á æskuheimilinu þegar hráefnin skiluðu sér ekki í bæinn. „Ég er alinn upp við að mamma hamstraði egg, mjólk og smjör fyrir jólin og stundum voru hlutir ekki til því snjóbíllinn komst ekki yfir heiðina. Þá var bara mjólkurlaust í viku og það náði ekki lengra.“

Mikil drykkja í veitingabransanum

Sextán ára var hann byrjaður að leigja í Reykjavík þar sem hann bjó einn meira og minna. Hann kynntist lífinu hraustlega að eigin sögn og það var mikið drukkið á meðal ungra matreiðslumanna. „Ég féll snemma í þessa gildru að þykja gott að smakka en árið 1991 kom vitglóra í mann og síðan eru komin þrjátíu ár,“ segir Óskar sem fór í meðferð þetta ár og hefur ekki litið um öxl.

Fannst hann berrassaður frammi í sal

Hann vann á veitingastöðunum Aski, Þremur Frökkum, Hótel Sögu, Hótel Valhöll og svo hófst það sem Óskar kallar enn í dag Argentínuævintýrið. Veitingastaðurinn var nokkurra ára gamall þegar Óskar og Kristján Þór Sigfússon keyptu hann árið 1990. Eftir það stóðu þeir félagar saman kófsveittir í eldhúsinu á meðan eiginkonurnar sáu um reksturinn um árabil. Óskar minnist þessa tíma með hlýju. „Það var eitthvað magic við þetta. Argentína var með kjöt, kartöflur og sósu og það var bara það sem fólk vildi,“ segir hann.

Gaman að passa upp á að allir séu glaðir, saddir og sælir

Þeir ákváðu eftir nokkurn tíma í rekstrinum að auglýsa eftir veitingastjóra en þá hringdu tveir fastakúnnar staðarins í hann og spurðu hvers vegna Óskar tæki það ekki að sér sjálfur. Hann sló til, þótti það erfitt fyrst en komst svo upp á lagið með það. „Mér fannst ég berrassaður frammi í sal, en svo var ég fljótur að ná þessu. Að taka flíkurnar af fólki þegar þau komu, fylla á vatnið og hreinsa öskubakkana. Það var bara mitt hlutverk,“ rifjar hann upp. „Þá tók Ingvar Sigurðsson við eldhúsinu og gerði það rosalega vel. Við sem teymi með Kristján á skrifstofunni, við vorum bara frábærir þrír saman.“

Hann segir það vera lykilatriði að eigandinn bjóði fólk velkomið á staðinn og passi upp á að allir fari þaðan út sáttir og ánægðir. „Mér finnst gaman að passa upp á að allir séu glaðir, saddir og sælir,“ segir Óskar sem nú sinnir því hlutverki þegar hann stendur vaktina á Finnsson.

Var lopapeysumódel á tískusýningu þar sem hann kynntist eiginkonunni

Þar starfar hann ásamt meðeiganda sínum, Maríu Hjaltadóttur, sem hann kynntist á Seyðisfirði við óvæntar aðstæður þegar hann vann þar á togara sem kokkur. „Ég var að koma í land einn fimmtudaginn og þá segir mamma: Heyrðu Óskar, vinkona mín er með tískusýningu í kvöld og þú átt að mæta og labba í Álafosspeysu,“ rifjar hann upp. Hann reyndi að malda í móinn en það gekk ekki svo hann mætti og sýndi peysuna. „Þá var María á vegum Álafoss að selja peysur og við fórum að tala saman og ég bauð henni á rúntinn á eftir. Það var nóg og hún hefur verið mitt akkeri síðan.“ Hjónin eiga þrjú börn, Finn, Klöru og Guðfinn og tvö barnabörn og öll koma þau að rekstri veitingastaðarins.

Hélt hann myndi enda ferilinn á ströndinni

Árið 2003 sagði Óskar skilið við Argentínu og fjölskyldan flutti til Bretlands. Þar bjuggu þau í Gilford, bæ suður af London sem Óskar lýsir sem æðislegum breskum sveitabæ. „Ég væri til í að vera þar núna. Breskar sveitir eru æðislegar og tíu árin sem við áttum þar voru frábær.“

Eftir hrunið fluttu þau til Barcelona og bjuggu þar á strönd tuttugu mínútur suður af borginni. Þau bjuggu þar í fimm ár og undu sín vel í sólinni. Hann hélt því fram þangað til hann veiktist skyndilega fyrir tveimur árum að hann myndi enda ferilinn á litlum veitingastað á ströndinni - en svo kom áfallið.

Var alveg að drepast í hausnum

Á Þorláksmessu árið 2019 fann Óskar fyrir miklum höfuðverk. Hann var nýkominn úr ræktinni þegar hann ákvað að kíkja í Hagkaup að kaupa það sem vantaði fyrir jólin. Hann kom við í vinnunni hjá eiginkonu og dóttur sinni til að aðstoða þær í jólaösinni þegar hann fékk slæman verk. „Fyrst hélt ég að ég væri að fá flensu en svo var ég bara alveg að drepast í hausnum. Svo var þetta orðið eitthvað skrýtið.“

María skutlaði eiginmanninum heim þar sem hann byrjaði að kasta upp vegna sársauka. Svo hætti hann að geta hreyft tær og fingur. Þá var hringt á sjúkrabíl og hann fór beint upp á gjörgæslu. Á aðfangadagsmorgunn fékk fjölskyldan þau tíðindi að það væri æxli hægra megin í höfðinu.

Hvarflaði ekki að honum að æxlið væri komið á fjórða stig

Fjölskyldan tók fréttunum með ró enda segist Óskar hafa verið handviss um að hér væri ekkert alvarlegt á seyði, „að þetta yrði bara fjarlægt og þetta yrði eins og hver önnur aðgerð,“ hugsaði hann.

Aðgerðin var mikil og þau héldu jól og biðu fregna. „Við fáum ekki að vita fyrr en sautjánda janúar hvaða tegund af æxli þetta væri. Ég var ákveðinn í því að þetta væri bara venjulegt æxli sem yrði tekið úr, það hvarflaði ekki að mér í eina mínútu að þetta væri illkynja og komið á fjórða stig og ég gæti farið að telja niður,“ segir hann.

María brotnaði niður en hann fann ótrúlegan styrk

En læknirinn var alvarlegur á svip og sagðist hafa afar vondar fréttir að færa. „Að þetta sé komið á fjórða stig, mjög sjaldgæf tegund og því miður bráðdrepandi. María fór að ýta í hann, hvað meinarðu? Tíu ár eftir? Fimm? Hann bara nei þetta telur ekki í árum heldur mánuðum,“ segir Óskar sem á einhvern ótrúlegan hátt fann styrk til að taka einnig þessum fregnum með ró. „María eðlilega brotnar niður en ég fékk einhvern ofboðslegan kraft og styrk. Ég var bara sannfærður um að þetta færi vel og hef verið það alla tíð en ég er minntur á það á hverjum einasta degi að ég er ekki sami maður og ég var. Það hefur margt breyst í lífinu.“

Tók mataræðið í gegn og fer í ræktina

Dagarnir síðasta eina og hálfa árið hafa að mestu leyti snúist um að halda Óskari góðum með lyfjagjöf. Hann gerir sjálfur allt sem í hans valdi stendur til að passa upp á heilsuna, hefur tekið mataræðið í gegn og fer í ræktina að lágmarki þrisvar í viku. Í hádeginu kíkir hann á Finnsson og heilsar upp á gesti, svo leggur hann sig og tekur lyfin sín en kemur aftur við á kvöldin ef hann hefur krafta til.

Er frjáls maður ef hann talar um veikindin

Honum þykir gott og mikilvægt að tala um veikindin. „Þá er ég frjáls maður,“ segir hann, „og þetta er bara staðan.“ Hann finnur vel fyrir þeim þegar hann vaknar á morgnanna og hann segist ekki hafa sama hraða og áður, en samveran með fjölskyldunni og vinunum veitir honum orku og kraft og reksturinn sömuleiðis. „Mér þykir gaman að vappa á gólfinu og mér þykir gaman að sjá fólk sem er ánægt. Það veitir mér lífshamingju.“

Hrafnhildur Halldórsdóttir ræddi við Óskar Finnsson veitingamann í Sunnudagssögum á Rás 2. Hér er hægt að hlýða á viðtalið í heild sinni í spilara RÚV.