Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV

Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.
Jarðskjálfti í grennd við Grindavík
08.12.2021 - 11:38
Jarðskjálfti af stærðinni 3,1 varð skammt austan við Grindavík á ellefta tímanum í morgun.Skjálftinn er á þekktu jarðskjálftasvæði og er nokkuð frá Fagradalsfjalli.
Skjálftinn varð klukkan korter í ellefu í morgun á 5,7 kílómetra dýpi. Upptökin voru fjóra og hálfan kílómetra norðnorðaustur af Grindavík. Að sögn vakthafandi náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands varð skjálftinn á þekktu jarðskjálftasvæði við fjallið Þorbjörn og er ekki talinn vera til marks um hreyfingar í Fagradalsfjalli, en gosið hefur legið í dvala í tæpa þrjá mánuði.
Þá hefur skjálftavirkni í Grímsvötnum dottið niður seinustu daga eftir að skjálfti af stærðinni 3,6 varð snemma á mánudagsmorgun. Sá skjálfti setti vísindamenn upp á tærnar vegna þess að í gegnum tíðin hefur það gerst að eldgos hefst í kjölfar hlaups úr Grímsvötnum, seinast árið 2004.