Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Harðsvíruð glæpagengi að verki í Kaupmannahöfn

08.12.2021 - 01:27
Mynd með færslu
 Mynd: politiet.dk
Annar mannanna tveggja sem skotið var á í Herlev í Kaupmannahöfn aðfaranótt þriðjudags lést af sárum sínum. Þrír hafa þar með látið lífið í fjórum skotárásum í dönsku höfuðborginni á innan við viku. Fjórir liggja særðir eftir árásirnar, einn þeirra alvarlega.

Harðsvíraðir glæpamenn að verki

Líkur hafa verið leiddar að því að árásirnar tengist allar átökum glæpagengja. Ríkislögreglustjóri Danmerkur, Thorkild Fogde, segir lögreglu gera allt sem í hennar valdi stendur til að stöðva óöldina í höfuðborginni.

Hann segir engan vafa leika á um að harðsvíraðir glæpamenn séu að verki. Lögregla vinni að því á mörgum vígstöðvum að binda enda á átökin, og ekki síður að því að hafa hendur í hári hinna seku og koma þeim á bak við lás og slá.

Fogde segir að það sé að koma æ betur í ljós að skipulögð og samviskulaus glæpagengi séu að baki árásunum og að þau svífist einskis til að koma höggi á andstæðinga sína. Mikilvægt sé þó að taka það fram, segir ríkislögreglustjórinn, að það séu einmitt andstæðingar þeirra sem ofbeldisverk þeirra beinist að, en ekki almenningur.

Víðtækari heimildir lögreglu

Eftir árás gærkvöldsins fékk lögregla heimild til að stækka þau svæði, þar sem henni er heimilt að leita á fólki án þess að rökstuddur grunur sé um að viðkomandi hafi eitthvað óhreint í pokahorninu.

Tólf til viðbótar voru handteknir í gær í tengslum við rannsóknina og húsleit gerð á 25 stöðum.