Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Byggingu „járnmúrsins“ milli Ísraels og Gaza lokið

08.12.2021 - 04:24
epa06925393 View of the Israeli separation fence, or wall, in Kibbutz Kerem Shalom, on the southernmost part of Israel that shares border with the Gaza Strip and Egypt, 03 August 2018. Much of the wall is covered in art works including this depiction of The Wall album cover by Pink Floyd, released in 1979 and one of the bestselling albums of all time.  EPA-EFE/JIM HOLLANDER
 Mynd: epa
Ísraelar hafa lokið smíði og uppsetningu á 65 kílómetra löngum, rammgerðum „járnvegg“ á landamærunum að Gaza. Járnveggurinn er að hluta til neðanjarðar og teygir sig líka í sjó fram. Hann er ekki aðeins úr járni - eða stáli öllu heldur - heldur líka steypu, og er búinn hundruðum myndavéla, hreyfiskynjurum, radar og öðrum hátæknibúnaði. Er honum meðal annars ætlað að koma í veg fyrir að Palestínumenn nái að grafa göng undir landamærin.

Benny Gantz, varnarmálaráðherra Ísraels, segir í yfirlýsingu að búið sé að reisa „járnvegg, skynjara og steinsteypu milli hryðjuverkasamtakanna [Hamas] og íbúa í sunnanverðu Ísrael.“ Í tilkynningu ráðuneytisins kemur fram að fullkláraður múrinn sé 65 kílómetra langur og að 140.000 tonn af stáli og steinsteypu hafi farið í byggingu hans, sem tók þrjú og hálft ár.

Hörð gagnrýni vegna tveggja landamæramúra

Ísraelar hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir byggingu múrsins og ekki síður hinn  allt að átta metra háa múr á Vesturbakkanum. Hann á að verða um 700 kílómetra langur áður en yfir lýkur og gagnrýnendur segja helst mega líkja honum við Berlínarmúrinn og aðskilnaðarstefnu hvítra manna í Suður-Afríku á síðustu öld. Hvort tveggja Alþjóðadómstóllinn í Haag og Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hafa lýst því yfir að sá múr fari í bága við alþjóðalög.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV