Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tveir menn skotnir í Herlev í Kaupmannahöfn í nótt

07.12.2021 - 06:30
Mynd með færslu
 Mynd: Sally Hamilton - DR
Tveir menn voru skotnir í Herlev, úthverfi Kaupmannahafnar, í nótt. Báðir lifðu árásirnar af en ekkert hefur verið látið uppi um líðan þeirra að öðru leyti. Lögreglan í vesturhluta danska höfuðborgarsvæðisins greinir frá þessu.

Í tilkynningu embættisins segir að fjölmennt lögreglulið hafi verið að störfum á og við vettvang árásarinnar frá klukkan eitt í nótt að staðartíma og frameftir nóttu. Enginn hafi þó enn verið handtekinn vegna árásanna en rannsókn heldur áfram í birtingu.

Árásin í nótt var fjórða skotárásin í Kaupmannahöfn síðan á fimmtudag í liðinni viku. Tveir menn hafa látið lífið í þessumim árásum og fimm særst, einn þeirra lífshættulega.

Tengjast að líkindum átökum glæpagengja 

Í frétt DR er haft eftir lögreglu að enn sé of snemmt að fullyrða að árásirnar tengist. Áður hafi lögregla þó sagt að æ fleira bendi til þess að tengsl séu milli fyrstu árásanna þriggja og átaka skipulagðra glæpasamtaka.

Tveir hafa verið handteknir vegna skotárásarinnar á fimmtudag, þar sem hálfþrítugur maður var skotinn í bakið á Norðurbrú og hlaut bana af. Enginn hefur hins vegar verið handtekinn vegna árásanna á föstudag og laugardag.