Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þverrandi líkur á eldgosi í Grímsvötnum

Mynd: RUV / RUV
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir að líkur á eldgosi í Grímsvötnum í kjölfar hlaups fari þverrandi. Skjálftavirkni seinasta sólarhringinn hefur minnkað. Fluglitakóði verður líklega endurskoðaður.

Þetta kom fram í máli Kristínar á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hún segir að vísindamenn hafi farið í viðbragðsstöðu í gærmorgun þegar skjálfti af stærðinni 3,6 varð í Grímsvötnum.

„Við fórum upp á tærnar í gær þegar þessi skjálfti mælist og fleiri minni skjálftar mældust í gærmorgun. Það er alveg týpískur undanfari eldgoss, það er aukin skjálftavirkni þannig að það var full ástæða til að bregðast við því. Sem betur fer hefur þessi virkni ekki haldið áfram. Það hefur verið rólegt á skjálftavaktinni í nótt þannig að ég geri ráð fyrir að við munum endurskoða þennan fluglitakóða.“ segir Kristín.

Eftir skjálftann í gær var fluglitakóði Veðurstofunnar færður úr gulu í appelsínugult. 

Þannig að það eru ekki miklar líkur á að það gjósi í Grímsvötnum næstu daga?

Við þurfum bara að bregðast við virkninni hverju sinni og það voru mestar líkur í tengslum við þessa fargléttingu og nú er hún afstaðin og við búumst við því að svarið sé nánast samtímis að það líði ekki mikill tími frá því að eldstöðin upplifi þennan mikla farglétti þar til að hún fari í gang, ef svo má segja. Þessi sviðsmynd, að hlaup setji í gang eldgos, mér finnst hún fara að verða ólíklegri með hverjum deginum.“ segir Kristín.

Hún segir að það sé hluti af starfi þeirra sem vinna við náttúruvárvöktun að bregðast hratt við enda séu Grímsvötn langvirkasta eldfjallakerfi landsins og lítill aðdragandi sé yfirleitt að gosum í þeim, líkt og í Heklu.