Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Réðu Guðna frá því að fara í viðtal í Kastljósi

07.12.2021 - 22:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdastjóri KSÍ og almannatenglar lögðust eindregið gegn því að Guðni Bergsson mætti í viðtal í Kastljósi á RÚV þann 26. ágúst. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu úttektarnefndar ÍSÍ um ofbeldismál sem ratað hafa inn á borð KSÍ.

Guðni fór í viðtalið þar sem hann var til svara vegna opinberrar gagnrýni sem sambandið sætti vegna viðbragða þess við frásögnum um meint kynferðisbrot leikjamma, segir í skýrslunni.

Sagði sig frá ráðgjöf vegna viðtalsins

„Klara [Bjartmarz framkvæmdastjóri] mun eindregið hafa ráðið Guðna frá því að fara í það viðtal. Samkvæmt upplýsingum sem úttektarnefndin fékk við athugun sína á málinu mun Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar KSÍ, hafa dregið sig út úr allri ráðgjöf um málið í kjölfar þeirrar ákvörðunar Guðna að fara í viðtalið,“ segir í skýrslunni.

Þá hafi almannatengslafyrirtækið KOM ráðlagt Guðna að fara ekki í viðtalið. „. Í tölvupósti til úttektarnefndarinnar sagði Guðni að KOM hafi ráðið honum frá því að mæta í viðtalið hjá RÚV þar sem ekki hafi ríkt traust um að RÚV myndi gæta hlutlægni og hlutleysis í sínum fréttaflutningi. Lýsti Guðni jafnframt þeirri afstöðu að miðað við efnistökin mætti segja að það hefði komið í ljós, bæði í vöntun RÚV á að afla sér upplýsinga um málið og hunsun þeirra upplýsinga sem hann lét í té sem skiptu verulegu máli að hans viti,“ segir í skýrslunni.

Í viðtalinu sagði Guðni að hann teldi gagnrýnina ómaklega og að engar formlegar kvartanir hefðu borist. „Ekki  með  formlegum  hætti,  en  við  höfum  verið  meðvituð  núna  nýverið  um  umræðu  á  samfélagsmiðlum, en við höfum ekki fengið kvörtun eða ábendingu um að einhver tiltekinn hafi gerst sekur um kynferðisbrot,“ sagði Guðni í viðtalinu.