Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Rafmagn fyrir 100.000 heimili í súginn árlega

07.12.2021 - 19:38
Árlega fellur til ónýtt raforka sem samsvarar afkastagetu Kröfluvirkjunar vegna annmarka flutningskerfisins og það var fyrirsjáanlegt að Landsvirkjun þurfi nú að skerða afhendingu raforku til stórnotenda. Framkvæmdastjóri hjá Landsneti áætlar að á hverju ári tapist tíu milljarðar vegna ónægrar flutningsgetu raforku.

Í gær tilkynnti Landsvirkjun um að skerða þyrfti nú þegar afhendingu á raforku til fiskimjölsverksmiðja, álvera og gagnavera vegna raforkuskorts og annmarka á flutningsgetu. Landsnet hefur ítrekað bent á að vegna Byggðalínu, sem er yfir 50 ára gömul, gangi erfiðlega að uppfylla markmið raforkulaga.

„Því miður er það þannig að flutningskerfið okkar er ekki nægilega vel búið til að ráða við alla orkunotkun í landinu þegar á reynir,“ segir Sverrir Jan Norðfjörð framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets. „Við höfum séð mörg dæmi um þetta, það hafa til dæmis verið fréttir af atvinnutækifærum sem ekki hafa orðið vegna þessa sama.“

Elstu hlutar Byggðalínu, sem er hringtenging raforkuflutninga um landið eru 50 ára og hún annar engan veginn flutningsþörfinni.

„Hún ræður við að flytja minna en 5% af því sem er uppsett af orku eða afli í landinu. Ef við myndum líkja þessu við rútu sem fer hringinn í kringum landið þá getum við sagt að síðan í sumar hafi verið setið í öllum sætum í rútunni. Kannski einhverntímann einhver staðið líka,“ segir Sverrir.

Og þetta er ekki í fyrsta skiptið sem það gerist. Sverrir segir að flutningskerfið sé reglulega nýtt í botn. „Það er orðinn hefðbundinn rekstur hjá okkur, því miður. Og það þýðir að sveigjanleikinn er enginn, ef það þarf eitthvað meira.“

Og þegar sveigjanleikinn er enginn, þá fer orka forgörðum. Áætlað að takmarkanir í flutningskerfinu dragi úr vinnslugetu kerfisins sem nemur allt að 500 gígavattstundum, það samsvarar meðalorkunotkun um 100.000 heimila sem eru tveir þriðju allra heimila á Íslandi. 

„Þessi tala var svona 300 gígavattstundir fyrir nokkrum árum síðan, svo var hún 400 - nú erum við að sjá 500. Þannig að þetta er vaxandi vandamál og þetta er orka sem er á við það sem er framleitt í Kröflu eða Svartsengi. Þannig að það er ein virkjun sem fer þarna forgörðum. Er þetta ásættanlegt? Í mínum huga - alls ekki. Það þarf að styrkja flutningskerfið og þetta snýst þá fyrst og fremst um það að styrkja leiðina á milli Norður- og Austurlands hingað yfir á Suðvesturhornið.“

Og það er ekki bara orka sem tapast - heldur líka peningar.

„Þetta er ekki eingöngu spurning um að nýta ekki auðlindina nægilega vel, þetta eru líka tapaðar tekjur fyrir þjóðarbúið. Þetta mikil orka - 500 gígavattstundir - ef við horfum eingöngu á orkuverðið þá er þa ðyfir 2 milljarðar. Ef við horfum á afleiddar tekjur og áhrif þá erum við komin yfir 10 milljarða,“ segir Sverrir.

Uppbygging nýrrar byggðalínu hófst 2019, áformað er að hún verði komin í gagnið eftir tíu ár en framkvæmdir hafa gengið hægar en áætlað var. „Það þarf að spýta í lófana og klára þetta og þar er það kannski helst okkar innlendu opinberu ferli sem eru að tefja okkur,“ segir Sverrir.

Hann segir að það sé aðallega skipulag, framkvæmdaleyfi sveitarfélaga, mat á umhverisáhrifum og leyfi frá öðrum eftirlitsstofnunum. „Það er mikið sem þarf að klárast í undirbúningnum og ég vil leggja áherslu á að þetta snýst ekki um að vanda ekki til verka. við viljum endilega gera hlutina vel og vanda okkur en það þarf að vera góður framgangur í verkefninu.“

En nú þarf Landsvirkjun að grípa til þessa - er hægt að bíða í tíu ár? „Það er góð spurning. Það þarf kannski að skerða mögulega oftar ef sama ástand kemur upp og er núna.“

Hörður Arnarsson forstjóri Landsvirkjunar, segir að skerðingar á raforku um helgina hafi komið til vegna mjög krefjandi aðstæðna. „Það voru bara um helgina mjög krefjandi aðstæður, það var slegið framleiðslumet vegna mikillar eftirspurnar í kerfinu. Svo voru tvö atvik, annarsvegar var orkuframleiðandi sem átti að koma með vél úr viðhaldi sem tafðist. Svo hinsvegar bilaði vél í Búrfelli svo við mátum það svo að það yrði að grípa til aðgerða strax í þessari viku“.

Hann segir met í raforkunotkun nú slegin viku eftir viku. Eftirspurn eftir raforku sé með allra mesta móti, aðallega vegna aukinnar notkunar stórnotenda. Einnig hafi innrennsli í lónum verið mjög slæmt í sumar haft áhrif á vatnsorkuver. Þá hafi þau ekki geta nýtt orkuna nægilega vel vegna flutningskerfisins.

Þá gætu slíkar skerðingar staðið fram á vor ef ekki komi fyrr góðar rigningar á hálendinu og rennsli aukist í raforkuverum. Hægt er að horfa á viðtal við Hörð úr kvöldfréttum sjónvarps í spilaranum hér að ofan.