Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bandaríkjastjórn kærir stjórnvöld í Texas

07.12.2021 - 01:46
Mynd með færslu
 Mynd: M.Little - Wikipedia
Bandaríkjastjórn höfðaði í gær mál á hendur Texasríki vegna áforma yfirvalda þar um að breyta kjördæmaskipan þar, með það fyrir augum að mismuna fólki á grundvelli kynþáttar og uppruna. Merrick Garland, dómsmálaráðherra, höfðar málið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Á fréttamannafundi í gær sakaði hann yfirvöld í Texas um að brjóta gegn annarri grein bandarísku kosningalöggjafarinnar. Hún kveður á um að ekki megi hindra jafnan aðgang kjósenda að kosningum og þátttöku í stjórnmálum.

Sniðganga vísvitandi milljónir nýrra kjósenda sem skila Texas tveimur nýjum þingmönnum

Vanita Gupta, aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segir þær breytingar sem Texasþing hafi ákveðið og ríkisstjórinn samþykkt til þess gerðar að torvelda svörtu fólki og fólki sem á rætur í Rómönsku Ameríku að nýta stjórnarskrárvarinn kosningarétt sinn.

Hún benti á að Texasbúum hafi fjölgað um fjórar milljónir frá 2010 til 2020 og að 95 prósent þessara nýju Texasbúa komi úr minnihlutahópum. Fólksfjölgunin leiði til þess að þingmönnum Texas í fulltrúadeild Bandaríkjaþings fjölgi um tvo í næstu kosningum.

Þrátt fyrir að þetta megi nánast alfarið rekja til fjölgunar svartra og fólks af rómönskum uppruna, segir Gupta, hafi yfirvöld í Texas dregið kjördæmakortið þannig upp að tryggt sé, að þingmennirnir komi frá svæðum þar sem hvítir eru í meirihluta.

Kosið verður um hluta þingmanna í fulltrúadeildinni á næsta ári.