Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Reglur hertar á gjörvöllu Grænlandi

Mynd með færslu
 Mynd: Oliver Schauf - Wikipedia
Hertar reglur vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins taka gildi á gjörvöllu Grænlandi í dag. Sambærilegar takmarkanir hafa verið í gildi á nokkrum stöðum, til að mynda í höfuðstaðnum Nuuk.

Þess er krafist að fólk sýni fram á bólusetningu gegn COVID-19 eða neikvæða niðurstöðu skimunar til að fá að heimsækja fjölmenna staði sem almenningur sækir.

Það á meðal annars við um veitingahús, kvikmyndahús og hárgreiðslustofur. Grímuskylda verður tekin upp í öllum bæjum og þorpum þar sem smita af óröktum uppruna hefur orðið vart næsta hálfa mánuðinn á undan.

Ferðaskilyrði innanlands verða einnig hert með þeim skilyrðum að sýna ber neikvæða niðurstöðu prófs eða bólusetningarvottorð. Óbólusettir skuli halda sig í sóttkví í hálfan mánuð eftir komu á áfangastað eða uns hægt verður að sýna fram á neikvæða niðurstöðu úr skimun.