Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Raforkuskortur leiðir til aukinnar olíunotkunar

06.12.2021 - 21:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hjalti Stefánsson
Framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar segir að ákvörðun Landsvirkjunar um að flýta fyrirhugaðri skerðingu á raforkuafhendingu til fiskimjölsverksmiðja komi fyrirtækinu í opna skjöldu. Þetta eigi þó ekki að hafa áhrif á framleiðslugetu en auki hins vegar kostnað.

Ákvörðun Landsvirkjunar nær einnig til annarra stórnotenda með skerðanlega skammtímasamninga til dæmis gagnavera og álvera. Ákvörðunin tekur gildi strax en ekki í janúar eins og til stóð.

Ástæðan er raforkuskortur og ónæg flutningsgeta raforkukerfa.

Loðnuvertíðin er nú að hefjast og mikil orkunotkun framundan hjá fiskimjölsverksmiðjum.

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar segir þetta leiða til aukinnar olíunotkunar til að knýja framleiðsluna.

„Það eru allar verksmiðjur sem eru að nýta þessa umframorku með varaafl uppsett til þess að mæta skerðingum eins og þessum. En auðvitað hversu bratt þetta kemur og hversu snemma þetta kemur núna til það kemur okkur dálítið í opna skjöldu. En Landsvirkjun er bara með sín spil á hendi og hefur sínar ástæður fyrir þessu,“ segir Gunnþór.

Hann telur að þetta hafi ekki áhrif á framleiðslugetu en auki hins vegar kostnað.

„Olíuverð er hátt nú um stundir og verðlagning á orkunni hefur tekið mið af því að hún sé skerðanleg eins og nú er. Þannig að þetta mun hafa einhvern kostnaðarauka í för með sér,“ segir Gunnþór.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV