Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Nýgengi óbólusettra 13 sinnum meira

Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Um þrettánfaldur munur er á nýgengi kórónuveirusmita hjá óbólusettum og hjá fólki sem hefur fengið örvunarskammt. Hátt í helmingur þeirra sem hefur verið lagður inn á Landspítala með COVID-19  í fjórðu bylgju faraldursins er óbólusettur, heilbrigðisráðherra segir mikilvægt að virða sjónarmið þeirra sem ekki þiggja bólusetningu. Nokkur hundruð lítrum af kórónuveirubóluefni hefur verið sprautað í Íslendinga síðan bólusetningar hófust hér á landi fyrir tæpu ári.   

Frá því að fyrsti kórónuveirubóluefnisskammturinn var gefinn hér á landi 29. desember hafa verið gefnir hátt í 700.000 skammtar. Í hverjum þeirra er að jafnaði um hálfur millilítri af bóluefni og því eru þetta samtals á fjórða hundrað lítrar af bóluefni.

Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um bólusetningu barna á aldrinum 5-11 ára, en 76% landsmanna eru nú fullbólusett, samkvæmt tölum á covid.is. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að fólk þiggur ekki bólusetningu, en lægsta bólusetningarhlutfallið er á Suðurnesjum - rúmt 71%. Hæsta hlutfallið er á Norðurlandi, tæpt 81%. Þegar litið er til þeirra sem eru eldri en 12 ára og hefur verið boðin bólusetning er hlutfallið 90%.

Mishátt hlutfall eftir aldri

Nánast allir 70 ára og eldri eru ýmist fullbólusettir, eða að hluta. Þegar neðar dregur í aldri eykst hlutfall óbólusettra  og það er hæst hjá 12-15 ára  - þar sem tæpur fjórðungur hefur ekki fengið bólusetningu.

Talsverður munur er á 14 daga nýgengi smita eftir bólusetningu og það er þrettán sinnum hærra hjá þeim sem ekki hafa fengið fulla bólusetningu en hjá fullbólusettum með örvunarskammt. Hjá þeim sem ekki hafa fengið fulla bólusetningu er það 754,6, hjá fullbólusettum 470,3 og hjá fólki sem er fullbólusett og með örvunarskammt er það 58,5.

En þótt aðeins lítill hluti þjóðarinnar sé óbólusettur þá er hann stór hluti þeirra sem hafa lagst inn á Landspítala í þessari Covid-bylgju eða 42%. Og nærri þriðji hver sem hefur lagst inn á gjörgæslu er óbólusettur.

„Maður verður að virða ólík sjónarmið“

Þessi vika er sú síðasta fyrir jól þar sem boðið er upp á örvunarskammta, en hátt í 120.000 hafa þegar þegið slíkan skammt. Og í hádeginu í dag var röðin komin að Willum Þór Þórssyni, nýskipuðum heilbrigðisráðherra sem lét vel af sér að bólusetningu lokinni: „Þetta er svo mikið fagfólk sem starfar við þetta að ég fann ekkert fyrir þessu,“ sgði ráðherra.

„Ég geri bara eins og vísindamennirnir hafa sagt okkur og hvatt okkur til. Þetta hjálpar í baráttunni,“ sagði Willum Þór. „En svo verður maður bara að virða þau sjónarmið sem eru uppi hjá fólki sem af allskonar ólíkum ástæðum hræðist þetta eða vill ekki láta bólusetja sig.“

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir