Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Langsterkasta amma í heimi

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn

Langsterkasta amma í heimi

06.12.2021 - 08:17
Elsa Pálsdóttir varð að því er virðist á einni nóttu eitt frægasta nafn landsins í heimi kraftlyftinga. Hún tók þátt í sínu fyrsta Íslandsmeistaramóti 2019, setti nokkur Íslandsmet og þá var ekki aftur snúið. Í sumar urðu svo tímamót þegar hún keppti í fyrsta sinn á Evrópumóti og svo heimsmeistaramóti í september. Og uppskeran var ríkuleg. 

Leikskólakennari, amma og heimsmeistari í kraftlyftingum

Landinn hitti Elsu á dögunum. Hún er uppalin í Garðinum og er 61 árs. Hún starfar sem sérkennslustjóri á leikskólastigi í Stapaskóla en er líka heimsmeistari í kraftlyftingum. 

„Sem lítil stelpa eða unglingur æfði ég fótbolta. Ég gerði það þangað til ég varð ófrísk að mínu fyrsta barni. Eftir það fór ég að stunda venjulega líkamsrækt og hef gert það alveg þangað til ég fór að fókusera núna á kraftlyftingar. Það gerðist þannig að 2011, þá nýorðin fimmtug ákvað ég að prófa að keppa í þrekmótaröðinni. Þetta varð upphafið að því að ég fattaði almennilega hvar styrkleikarnir lægju,“ segir Elsa. 

Í sinni fyrstu hnébeygju á EM í haust setti hún heimsmet og bætti það svo tvívegis í næstu beygjum. Og svoleiðis hefur hún haldið áfram síðan. 

„Þetta náttúrulega kom flestum á óvart alveg eins og í rauninni mér sjálfri.“ Og hún segir það hafa verið gaman að snúa aftur á leikskólann, klyfjuð verðlaunapeningum og bikurum. 

Hafragrauturinn uppistaðan að árangrinum

„Þau fengu að sjá verðlaunapeningana og bikarana og fengu að prófa. Þau horfðu á vídjó af lyftunni svo þau voru mjög stolt og fannst þetta flott. Og þeim var náttúrulega tjáð það að uppistaðan að þessu væri hafragrauturinn á morgnana.“

Hér má horfa á þáttinn í heild sinni.