Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Langanesbyggð og Svalbarðshreppur í formlegar viðræður

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sölvi Andrason
Sveitarstjórnir í Langanesbyggð og Svalbarðshreppi hafa samþykkt að hefja formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaganna. Þá er áætlað að stofna sérstakan uppbyggingarsjóð um jarðir í eigu sveitarfélaganna, en talsverð laxveiðihlunnindi eru á nokkrum þessara jarða.

Stjórnendur Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps hafa nú í tæpt ár átt í óformlegum viðræðum um hugsanlega sameiningu, skoðað málið frá ýmsum hliðum, haldið kynningarfundi fyrir íbúa og svo framvegis. Þetta hefur nú leitt af sér samþykkt um að hefja formlegar viðræður.

Vonast til að fyrsti fundur verði í desember

„Nú á bara eftir að boða fyrsta fund viðræðunefndarinnar. Það getur vonandi gerst í desember,“ segir Þorsteinn Ægir Egilsson, oddviti Langanesbyggðar og fulltrúi í viðræðunefnd um sameiningu.

„Mörg tækifæri sem geta falist í þessu“

Sveitarfélögin tvö eiga fjölmargt sameiginlegt og hafa lengi starfað saman að öllum helstu verkefnum. „Ég skynja að það séu blendnar tilfinningar,“ segir hann. „Það eru margir sem eru jákvæðir fyrir þessu, enda eru mörg tækifæri sem geta falist í þessu. Eðlilega, þegar verið er að taka svona stóra og viðamikla ákvörðun, þá eru alltaf einhver spurningarmerki einhvers staðar og þannig er það nú bara.“

Sérstakur sjóður um jarðir í eigu sveitarfélaganna

Samþykkt hefur verið að stofna sérstakan uppbyggingarsjóð um átta jarðir í eigu Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps, verði sveitarfélögin sameinuð. Um helmingur jarðanna fær meðal annars talsverðar tekjur af laxveiðihlunnindum. Þorsteinn Ægir segir að enn sé verið að útfæra hvernig þessi sjóður muni starfa, ef af verður. „Þannig  að það er ekki fullmótað, en hugmyndin í grófum dráttum er komin. Og aðal markmiðið er að tekjur þessara jarða skili sér í einhvers konar samfélagsverkefni.“