Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Illviðri nálgast Bretlandseyjar

06.12.2021 - 17:30
Erlent · Bretland · Írland · Evrópa · Veður
Huge waves crash the against the lighthouse in Seaham Harbor after gusts of almost 100 miles (160 km) per hour battered some areas of the country during Storm Arwen, in Durham, England, Saturday Nov. 27, 2021. The Met Office issued a rare red warning for wind from 3pm on Friday to 2am on Saturday as the first winter storm was set to batter the country. (Owen Humphreys/PA via AP)
 Mynd: AP - PA
Rauð óveðursviðvörun hefur verið gefin út í nokkrum héruðum á Írlandi vegna óveðurslægðarinnar Barra sem nálgast af hafi. Útlit er fyrir vont veður víðast hvar á Bretlandseyjum meðan hún fer yfir. Á annað þúsund heimili á Englandi eru enn rafmagnslaus frá síðasta óveðri, sem nefnt var Arwen.

Michael Martin, forsætisráðherra Írlands, bað landsmenn í dag að vera ekki á ferðinni meðan veður verður hvað verst. Sér í lagi bað hann fólk að halda sig frá ströndum landsins. Þá bað hann fólk að hlusta á ráðleggingar veðurfræðinga. Þeir hafa gefið út rauða viðvörun í nokkrum héruðum og appelsínugula í öðrum. Þær verða í gildi í að minnsta kosti einn sólarhring.

Breska veðurstofan hefur einnig sent frá sér viðvörun vegna hvassviðris og úrkomu. Útlit er fyrir regn á láglendi og snjókomu eftir því sem hærra dregur, jafnvel allt að tíu sentimetra þar sem mest snjóar. Gert er ráð fyrir að vindhraðinn fari yfir þrjátíu metra á sekúndu í verstu hviðunum.

Óveðurslægðin Arwen fór yfir Bretlandseyjar fyrir tíu dögum með þeim afleiðingum að rafmagn sló út á þúsundum heimila í Skotlandi og norðvesturhluta Englands. Fyrr í dag voru þrettán hundruð heimili enn án rafmagns. Starfsmenn Northern Powergrid hafa keppst við að tengja þau í dag. Þeir vonast til að hafa lokið verkinu áður en Barra skellur á í fyrramálið.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV