Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Grannt fylgst með Grímsvötnum

06.12.2021 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Jarðskjálfti af stærðinni 3,6 varð í Grímsvötnum snemma í morgun. Fluglitakóði var færður úr gulu í appelsínugulan. Engin merki eru þó um gosóróa. Nýr sigketill er kominn í ljós við Grímsfjall.

 Í morgun varð skjálfti 3,6 að stærð í Grímsvötnum. Nokkrir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið, sá stærsti 2,1 að stærð. Breyting hefur verið gerð á fluglitakóða Veðurstofunnar vegna Grímsvatna. Litakóðinn hefur verið færður úr gulum yfir í appelsínugulan. Sú breyting er gerð ef eldstöð sýnir aukna virkni og vaxandi líkur eru á eldgosi. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir segir mögulegt að gos fylgi í kjölfar hlaups í Grímsvötnum. 

„Það er amk ástæða til að hafa mjög vakandi auga með Grímsvötnum. Við erum ekki að sjá enn þá að minnsta kosti nein ummerki sem myndu segja að nú sé kvika á leið til yfirborðsins. Stakur skjálfti sem kom í morgun og það hefur ekki verið neitt sem kemur í kjölfarið en það gæti gerst.“ segir Magnús Tumi.

Stakir skjálftar eins og sá í morgun hafi áður komið í kjölfar hlaups án þess að það færi að gjósa. 

„Það er of snemmt að segja til um, við erum ekki komin út úr hættunni enn þá, það er möguleiki að þrýstiléttirinn framkalli eldgos. Þó að það sé ekki komið slíkt fram þá verðum við að gefa þessu aðeins meiri tíma áður en við förum að afskrifa það sem möguleika.“ segir Magnús.

Ósvaraðar spurningar um nýjan ketil

Hlaupið úr Grímsvötnum er í rénun. Rennsli í gígjukvísl mældist 2310 rúmmetrar á sekúndu síðdegis í gær sem er nokkuð minna en í gærmorgun þegar það mældist 2.800 rúmmetrar á sekúndu. Nýr sigketill suðaustan í Grímsfjalli kom í ljós í hlaupinu. Ekki er vitað nákvæmlega hvernig hann varð til.

„Einfalda svarið við því er að við eigum enga einfalda skýringu á því hvað nákvæmlega gerðist þarna annað en að þarna hefur heilmikill hiti komið upp úr jökulbotni. Það er ekki útilokað að þarna hafi komið upp jarðhiti eða gufusprengingar. Það er samt dálítið óvanalegt, þarna hefur ekki verið jarðhiti áður. Það er ekki hægt að útiloka þó að það vanti þau merki sem maður teldi líklegt að sæjust að þarna, hafi smá kvika komið upp á yfirborðið.“ Segir Magnús Tumi.

Hann segir ketilinn líkjast kötlum sem mynduðust í tengslum við umbrot í Bárðabungu, um 20 metra djúpur og um 500 metrar í þvermál. Einnig sé mögulegt að þarna hafi vatn safnast saman seinustu mánuði og hlaupið hafi svo dregið það með sér. Staðsetningin sé samt þannig að menn búist ekki við slíku. Vísindamenn eigi erfitt með að svara þessu núna en á næstu dögum verður flogið yfir svæðið til að mæla ketilinn. 

 

Líkir hlaupinu við bunu úr fötu

Vaxtarhraði Grímsvatnahlaupsins var hægari en áður og hlauptoppurinn ekki eins hár og menn bjuggu sig undir. Magnús segir það vera til marks um að Grímsvötn séu að komast í sama gír og þau voru í fyrir árið 1996.

„Það hlaup sem komu á árunum 1970-1996 voru hægari en þetta. Þetta er eins og ef þú tekur vatnsfötu og hellir rólega þá verður ekki mikið flóð en ef þú sturtar úr henni allri þá færðu mikla gusu.“ segir Magnús.