Fékk dauðadóm og beið eftir næsta höggi

Mynd: RÚV / RÚV

Fékk dauðadóm og beið eftir næsta höggi

06.12.2021 - 14:33

Höfundar

Þegar Katrín Björk Guðjónsdóttir var 21 árs fór hún að fá endurtekin heilablóðföll og missti stjórn á hreyfingu og tali. „Mér voru skyndilega gefin allt önnur spil,“ segir Katrín sem hafði dreymt um að ferðast og syngja. Hún hefur lært aðlaga markmið sín og drauma að breyttum aðstæðum.

Katrín Björk Guðjónsdóttir sem er 28 ára Flateyringur hefur alla tíð sungið og haft áhuga á dansi og leiklist. Þegar hún var 21 árs fór hún að fá endurtekin heilablóðföll, sem höfðu þær afleiðingar að hún missti stjórn á líkama sínum og tali. Hún setur sér þó stór markmið og er staðráðin í því að standa í fæturna og geta sungið fyrir fólkið sitt á ný.  

Óttast að geta ekki kynnt sig sem Katrín Björk  

„Það sem veldur mér mestum áhyggjum er sú hugsun að kannski nái ég aldrei framar að kynna mig fyrir öðru fólki sem Katrín Björk, sú Katrín sem ég er innst inni, sú sem ég hef alltaf verið,“ segir Katrín í einlægu viðtali í þættinum Dagur í lífi sem var á dagskrá á RÚV á sunnudag.  

Áður en Katrín veiktist lagði hún stund á nám í lyfjafræði reyndi meðfram náminu við klásus í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Í dag býr hún með foreldrum sínum á Flateyri og ver mestum tíma í að skrifa, bæði á blogginu sínu og fyrir bókina sem hún er einnig að skrifa.

Sá skakkt andlit í speglinum 

Fyrsta áfallið kom í nóvember 2014 þegar Katrín Björk var læra undir klásus prófin í hjúkrunarfræðinni, þegar hún var gríðarlega stressuð. „Ég var í líkamsrækt að klára síðustu æfinguna þegar höfuðið þyngdist í nokkrar sekúndur,“ segir hún. Þegar hún hafi litið í spegilinn sá hún að andlitið var skakkt.  

Hún fór beint upp á bráðamóttöku þar sem kom í ljós að hún hafi fengið heilablæðingu. Hún vildi þó ekki hanga uppi á spítala þegar hún hafði jafnað sig, heldur vildi hún ólm byrja að læra aftur fyrir prófin. Tíu dögum síðar vaknaði hún og gat þá ekki hreyft hægri hluta líkamans. Það hafði komið bólga í sárið, þar sem heilablæðingin hafði orðið, og myndað tappa.  

Við tók erfið sjúkrahúslega sem var ólík öllu því sem Katrín hafði upplifað áður. „Við kröfðumst þess, og þurftum virkilega að berjast fyrir því, að ég fengi að fara í allar þær rannsóknir sem gætu gefið mér svör við því af hverju þetta gæti komið fyrir 21 árs gamla heilbrigða stelpu.“  

Beðið eftir næsta höggi 

Föstudaginn þann 7. desember fékk Katrín niðurstöðurnar úr rannsóknunum, sem allar voru eðlilegar nema ein. Þrátt fyrir að ættarsagan væri engin reyndist Katrín vera með ólæknandi sjúkdóm, arfgenga heilablæðingu. Það væri ekkert við því að gera annað en að bíða eftir næsta höggi.  

Þann 15. júní 2015, 7 mánuðum síðar, er Katrín að taka á móti skemmtiferðaskipi þegar hún finnur höfuðið þyngjast aftur. Í þetta skipti vissi Katrín nákvæmlega hvað væri í gangi því hún hafði upplifað það áður en nú var um að ræða miklu stærri blæðingu. „Mér til mikillar mildi hitti þessi stóra blæðing bara á hreyfisvæði,“ segir Katrín.  

„Mér finnst svolítið skemmtilegt að velta því fyrir mér hvort lífið hafi tekið á rás fram úr mér eða hvort ég hafi á þessari stundu endurheimt líf mitt.“ 

Ætlar að geta haldið tóni aftur  

Katrínu Björk hefur alla tíð þótt mikilvægt að setja sér skýr markmið. „Áður en ég veiktist tengdust markmiðin söng, námi eða hreyfingu,“ segir Katrín en nú hefur hún þurft að læra að aðlaga þau breyttum aðstæðum. Þrátt fyrir að daglegu markmiðin séu fremur einföld, að vinna í kafla eða taka fallega mynd fyrir samfélagsmiðla, þá eru stóru markmiðin að geta gengið aftur og talað.  

Söngurinn var Katrínu alltaf mikilvægur og gleði á gráum dögum. „Auðvitað sakna ég þess að geta sungið, skiljanlega, og haldið tóni. En auðvitað gefst ég aldrei upp. Ég ætla mér að geta haldið tóni og sungið. Það gefur mér svo óendanlega mikið.“  

Hefur endurheimt líf sitt  

„Yfirleitt næ ég að halda í gleðina og viljastyrkinn,“ segir Katrín. Á tímum hefur hún misst móðinn en hún segist hafa endurheimt styrkinn þegar hún áttaði sig á því að lífið, sem getur verið sárt, býður upp á ótal tækifæri sem hægt er að njóta. Ef maður bara kemur auga á þau og hefur kjark til að fylgja þeim eftir.  

„Fyrst eftir áfallið vildi ég bara verða eins og ég var áður, ná fullum bata svo ég gæti orðið ég sjálf aftur,“ segir Katrín. „Ég finn það núna að ég er bara ég og sú sem ég er í dag, en ég get stefnt að því að bæta mig dag frá degi. Ég trúi því að ég verði bara svona tímabundið svo ég ætla ekki að hætta að vera ég.“ Hún nýtur þess að vera í náttúrunni, með fjölskyldu sinni og vinum, að fara í leikhús, að skrifa og kynnast nýju fólki. „Ég hef svo sannarlega endurheimt líf mitt.“  

Rætt var við Katrínu Björk Guðjónsdóttur í þættinum Dagur í lífi sem sýndur var á RÚV. Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér.  

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Lítur ekki öðruvísi á lífið eftir heilaáföllin

Vestfirðir

Lyf talið geta hægt á arfgengri heilablæðingu

Vestfirðir

Öðlaðist frelsi þegar hún gat tjáð sig á ný