Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Dagbók frá 1761 varpar ljósi á lífið á Grænlandi

Mynd með færslu
 Mynd: Arktisk Institut

Dagbók frá 1761 varpar ljósi á lífið á Grænlandi

06.12.2021 - 02:52

Höfundar

Við tiltekt í eldföstum skáp í Norðurskautastofnuninni í Kaupmannahöfn fann skjalastjórinn Jørgen Trondhjem dagbók frá árinu 1761. Hann segir hana mikinn kjörgrip sem varpi ljósi á líf Grænlendinga.

Grænlenska ríkisútvarpið fjallar um málið á vef sínum

Sá sem skrifaði bókina var Niels Egede sem fyrir réttum 300 árum kom ásamt Hans föður sínum til Grænlands, þegar hann var ellefu ára. Hlutverk Hans Egede var að leita uppi Norræna menn í landinu og endurvekja eignarrétt Norðmanna yfir Grænlandi.

Enga fann hann Norræna menn en vitaskuld hitti hann inúíta sem hann tók við að kristna. Í bókinni er að finna mjög áberandi kort af nýlendunni Egedesminde á vesturströnd Grænlands sem Niels Egede sjálfur stofnaði árið 1759 við Diskó-flóa.

Allir íbúar nýlendunnar fluttust þaðan árið 1763 þangað sem nú er bærinn Aasiaat. Kortið er að sögn Trondhjems hreint ekki alveg venjulegt því að á því má sjá teikningar af hermönnum sem vakta nýlenduna ásamt myndum af helstu dýrum svæðisins - þeirra á meðal einhyrningi.

Trondhjem segir að myndin af einhyrningnum hafi vakið athygli sína og kátínu enda sé hún mjög lýsandi fyrir tíðaranda 18. aldarinnar. Auðvitað sýni teikningin ekki raunverulegan einhyrning heldur náhval en tarfar þeirrar tegundar bera mikla skögultönn sem vex fram úr höfðinu.

Náhvalstennur tengdust goðsögninni um einhyrninga og voru mjög dýr, eftirsótt verslunarvara og konungsgersemar. Kortið varpar ljósi á lífið á Grænlandi enda sýnir það einnig veiðimann með nýveiddan sel og konu með hefðbundinn hártopp og eyrnaskraut.

Kortið sýnir að mati Trondhjem að Niels Egede hafði mikla þekkingu og áhuga á Grænlandi og grænlenskri menningu, enda ólst hann upp í landinu frá barnsaldri. 
 

Tengdar fréttir

Pistlar

Staðreyndir og spekúlasjónir í Skaftfelli 

Tækni og vísindi

Trjáhringir renna stoðum undir Íslendingasögur

Evrópa

Heillegur ævaforn hestvagn fannst nærri Pompeii

Erlent

Ráðgátan um upprunastað jötunsteinanna leyst