Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Banaslys: Gætti ekki að bíl sem var að hægja ferðina

06.12.2021 - 13:14
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot úr skýrslu RNSA - RÚV
Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur að ökumaður bíls, sem lést eftir harðan árekstur á Skeiðavegi við Stóru-Laxá í júlí á síðasta ári, hafi ekið of nálægt bíl sem var fyrir framan hann. Þegar hann reyndi að forðast aftanákeyrslu við vegamót ók hann yfir á öfugan vegarhelming og í veg fyrir jeppa sem var að koma úr gagnstæðri átt.

Í skýrslu rannsóknarnefndar kemur fram að jeppinn hafi nánast farið yfir bíl mannsins og snúist í hálfan hring eftir áreksturinn.  Sá sem lést var 92 ára gamall karlmaður en aðrir sem lentu í slysinu hlutu lítil meiðsl.  

Slysið varð við vegamót Auðsholtsvegar og Skeiða-og Hrunamannavegar. Bjartviðri var, hiti í kringum 15 gráður, hægur vindur og þurrt.

Rannsóknarnefndin telur að ökumaðurinn hafi ekki gætt að bílnum sem var fyrir framan hann. Þegar sá hægði ferðina við vegamót ók hann yfir á öfugan vegarhelming og í veg fyrir jeppann sem ekið var úr gagnstæðri átt. 

Rannsóknarnefndin segir að eldri ökumenn virðast þurfa að einbeita sér frekar að staðsetningu sinni á veginum en þeir sem yngri eru. Það geti dregið athygli frá öðrum þáttum akstursins. SJón og hreyfigeta skerðist sömuleiðis með aldrinum. „Öll þessi atriði auka hættu á mistökum við akstur um vega-og gatnamót.“

Eldri ökumenn eru því hvattir til að aka hægar og halda meiri fjarlægð milli ökutækja til að auka þann tíma sem þeir hafa til þess að bregðast við.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV