Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ákærð fyrir bókhaldsbrellur og peningaþvætti

06.12.2021 - 11:11
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Héraðssaksóknari hefur ákært forsvarsmenn verktakafyrirtækjanna Brotafls og Kraftbindinga fyrir meiriháttar brot gegn skatta-og bókhaldslögum og peningaþvætti. Samanlögð upphæð skattalagabrotanna er upp á 152 milljónum króna. Í ákærunni gefur saksóknari í skyn að peningaþvættið í málinu geti numið allt að 760 milljónum króna.

Tveir framkvæmdastjórar Brotafls eru ákærðir fyrir að standa skil á efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum, rangfæra bókhald félagsins og peningaþvætti upp á að lágmarki 64 milljónir.  

Stjórnarmaður Kraftbindinga og framkvæmdastjóri félagsins eru ákærðir fyrir sömu brot á skattalögum; að standa skil á efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum, rangfæra bókhald félagsins og peningaþvætti. Brot þeirra nema 87 milljónum króna.

Fimmti maðurinn er síðan ákærður fyrir að hafa aðstoðað bæði forsvarsmenn Brotafls og Kraftbindinga með útgáfu rangra og tilhæfulausra reikninga í nafni fjögurra félaga sem hann var í forsvari fyrir.  

Athygli vekur að hann er einnig ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa aflað sér og öðrum ávinnings að fjárhæð að lágmarki 152 milljónum króna og allt að 763 milljónum króna með útgáfu sölureikninga á hendur Brotafli og Kraftbindinga. 

Fimm-menningarnir voru handteknir í umfangsmiklum aðgerðum héraðssaksóknara og lögreglunnar fyrir fimm árum í tengslum við rannsókn á stórfelldum brotum hjá nokkrum verktakafyrirtækjum.   

Ákæran á hendur þeim verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í vikunni. 

Fréttin hefur verið uppfærð