Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Áfram fækkar í Þjóðkirkjunni en fjölgar í Siðmennt

06.12.2021 - 16:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
229.314 voru skráð í Þjóðkirkjuna í upphafi mánaðar samkvæmt skráningu Þjóðskrár, eða 61 prósent þjóðarinnar. Þetta er nokkuð minna hlutfall en á sama tíma í fyrra þegar 62,3 prósent voru skráð í Þjóðkirkjuna. Hlutfallið var 65,2 prósent árið 2019.

Þetta kemur fram í samantekt Þjóðskrár á skráningu í trú- og lífsskoðunarfélög sem birtist í dag. Þjóðkirkjan er enn langfjölmennasta trúfélag landsins en Kaþólska kirkjan er í öðru sæti með 14.739 skráða. 88 fleiri en í fyrra.

Mest fjölgar í Siðmennt

Mest var fjölgunin milli ára í Siðmennt. Þar bættust 579 meðlimir við og er um að ræða 14,3 prósenta fjölgun. Einnig fjölgaði talsvert í Ásatrúarfélaginu, um 406 meðlimi eða átta prósent.

Þjóðskrá segir í samantekt að mest hafi hlutfallsleg fjölgun verið í hjálpræðishernum trúfélagi „eða um 23,6 prósent en nú eru 157 meðlimir skráðir í félaginu“.

Einnig fjölgaði nokkuð þeim sem voru skráð utan trú- og lífsskoðunarfélaga. Það voru 7,8 prósent í ár en 7,5 prósent í fyrra.

Þórgnýr Einar Albertsson