Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Þrettán látin í eldgosinu á Jövu

05.12.2021 - 03:41
epa09622692 Villagers carry their belongings near a truck burried under volcanic ash from the Mount Semeru eruption at Sumber Wuluh village in Lumajang, East Java, Indonesia, 05 December 2021. The volcano erupted on 04 December leaving a number of people killed and missing.  EPA-EFE/AMMAR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þrettán eru nú látin af völdum eldgossins í Semeru fjalli á eyjunni Jövu í Indónesíu. Björgunarsveitir hafa bjargað minnst tíu manns úr húsarústum.

Fjallið tók skyndilega að gjósa í gærmorgun og neyddi þúsundir á flótta undan eyðileggingunni. Svepplaga ský reis upp af fjallinu og dreifði ösku allt um kring meðan íbúar í nágrenninu forðuðu sér æpandi af ótta.

Hundruð fjölskyldna neyddust til að leita skjóls í bráðabirgðaskýlum. Björgunarfólk átti í vandræðum með að komast til þeirra sem þörfnuðust hjálpar ásamt því að  þrumuveður og ausandi rigning gerðu þeim erfitt fyrir. 

Innlendar hjálparstofnanir hafa sent matvæli, andlitsgrímur og annan nauðsynlegan búnað þangað sem fólk hefst við í neyðarskýlum.

Að minnsta kosti ellefu þorp í Lumajang héraði eru þakin öskulagi, hús eru á kafi og búfénaður hefur drepist. Næstum sextíu manns hafa slasast og um fjörtíu þeirra hlotið brunasár.

Semeru sem er hæsta fjall Jövu, 3,675 metra yfir sjávarmáli, gaus seinast í desember á seinasta ári. Síðan gosinu lauk hefur fjallið verið haft á næsthæsta viðbúnaðarstigi.

Næstum 130 virk eldfjöll eru í Indónesíu sem er innan Kyrrahafseldhringsins svokallaða þar sem hátt hlutfall jarðskjálfta og eldgosa heimsins eiga sér stað.