Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Reiði okkar er sjálfsvirðing

Þrjú þúsund og sjö hundruð konur voru myrtar í Mexíkó í fyrra, samkvæmt skýrslu mannréttindasamtakanna Amnesty International. Ung kona sem var skotin á mótmælum gegn ofbeldi, heldur mótmælum áfram og kveðst gera það til að verja reisn sína.

Mannréttindasamtökin fylgjast grannt með þróun mála í Mexíkó. Frá byrjun þessa árs og fram í október eru morðin orðin yfir þrjú þúsund. Framkvæmdastjóri Amnesty í Mexíkó og baráttukona frá landinu tóku þátt í málþingi á vegum Íslandsdeildar Amnesty International í Háskóla Íslands á dögunum.

Edith Olivares Ferreto, framkvæmdastjóri Amnesty í Mexíkó, segir að ofbeldið hafi aukist síðustu tvo áratugi. „Ríkið ber ábyrgð á mörgum þessara drápa því ríkið fyrirbyggir ekki ofbeldi gegn konum. Flest morðin eru framin af körlum sem standa konunum nærri,“ sagði hún í viðtali við fréttastofu. Vegna almenns óöryggis í landinu eru fleiri sem eiga byssur og telur Ferreto það hafa haft slæmar afleiðingar fyrir öryggi kvenna. 

Wendy Galarza fór á mótmæli 9. nóvember í fyrra. Þá söfnuðust um tvö þúsund manns saman í Cancun og mótmæltu þremur nýlegum konumorðum. Lögregla, vopnuð byssum og bareflum, særði þrettán manns. „Í mínu tilviki varð ég fyrir tveimur skotum lögreglu. Annað fór í fótinn og hitt inn í þjóvöðvann og út um leggöngin,“ útskýrir hún. Meðal þeirra sem lögregla særði voru tveir blaðamenn. Þá voru tvær konur dregnar í burt úr mannfjöldanum og beittar kynferðisofbeldi. Galarza kveðst ætla að halda mótmælum áfram þangað til konur í landinu verði öruggar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Wendy Galarza, baráttukona.

Þau sem lögregla særði stofnuðu samtökin N9 með vísun í dagsetninguna 9. nóvember, og standa mánaðarlega fyrir mótmælum.  Galarza kveðst halda áfram að mótmæla þrátt fyrir að vera enn hrædd við viðbrögð lögreglu. „Já, ég er mjög hrædd. Ég óttast hefndaraðgerðir eða að lögreglan brjóti á mér aftur en ég vel frekar að verja reisn mína. Ég kýs að verja sjálfsvirðinguna frekar en að vera hrædd.“

Fjöldi kvennahreyfinga hefur sprottið upp og mótmæla ofbeldinu. „Auðvitað erum við reiðar því við fáum enga vernd. Við höfum ekki rétt til að ganga um göturnar, vera öruggar heima hjá okkur og njóta verndar þegar við mótmælum þessu ofbeldi svo við erum auðvitað reiðar. Reiði okkar er sjálfsvirðing,“ segir Ferreto.

Margir morðingjanna eru makar eða fyrrum makar kvennanna en líka meðlimir glæpagengja og lögreglumenn. Í máli Galarza, eins og flestra annarra kvenna, hefur enginn þurft að svara til saka. Ferreto segir brýnt að alþjóðasamfélagið láti sig stöðuna varða.  

Mál Wendy Galarza er eitt þeirra sem Amnesty safnar undirskriftum fyrir. Með þeim er þrýst á stjórnvöld sem brjóta mannréttindi. 

epa09105816 A woman carries a bouquet of flowers outside the Quintana Roo representation in the capital, as a protest and to pay hommage to Victoria Esperanza Salazar, a Salvadoran migrant killed by police; in Mexico City, Mexico, 29 March 2021. Hundreds of feminists came out to demonstrate in marches in Cancun and Mexico City in which they demanded justice for the Salvadoran woman killed by police last Saturday in the municipality of Tulum, in the Mexican Caribbean state of Quintana Roo.  EPA-EFE/Sashenka Gutierrez
 Mynd: EPA
Mótmæli í Quintana Roo í mars á þessu ári.