Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Persónuafsláttur ekki fastur heldur fylgir verðbólgu

05.12.2021 - 14:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Persónuafsláttur verður ekki lengur föst krónutala heldur mun fylgja verðbólgu og framleiðnivexti frá áramótum. Hagfræðingur hjá ASÍ fagnar þessum breytingum þótt vissulega hefði verkalýðshreyfingin viljað sjá gengið lengra til að koma í veg fyrir sjálfkrafa hækkun skatta.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður sú breyting gerð um áramótin að persónuafsláttur mun fylgja verðlagi og framleiðnivexti í stað þess að vera föst krónutala. Arnaldur Sölvi Kristjánsson, hagfræðingur hjá ASÍ, segir breytingarnar í fjárlagafrumvarpinu skref í rétta átt.

„Verkalýðshreyfingin hefur oft bent á þennan galla í skattkerfinu, að skattbyrði hækki ár frá ári í mjög langan tíma, þannig að við lítum mjög jákvætt á að það sé verið að koma til móts við þessi sjónarmið sem við höfum haft. Þetta dregur úr því sem hefur gerst um langt árabil á Íslandi, að skattur aukist sjálfkrafa þar sem viðmiðunarfjárhæðir hækka ekki til jafns við laun,“ segir Arnaldur.

Hækkun verið meiri umfram verðbólgu

Arnaldur segir breytingarnar hluta af því sem samþykkt var í kjarasamningum árið 2019. Miðað við þróun verðbólgu síðustu fjögur ár auk eins prósents framleiðniaukningar myndi persónuafslátturinn hækka um 3,6 prósent á ári og yrði kominn úr tæpum 51 þúsund krónum í um 58.500 árið 2025.

„Ef við skoðum sögulega að þá hefur hækkun launa verið meiri en eitt prósent umfram verðbólgu, miðað við það mun þetta vandamál vera í framtíðinni að einhverju leyti líka þó í minna mæli.“

Verkalýshreyfingin hefur kallað eftir að persónuafslátturinn fylgi launaþróun og ef hún verður 5,1 prósent eins og síðustu fjögur ár yrði persónuafslátturinn kominn í nærri 62 þúsund krónur árið 2025 í stað rúmlega 58 þúsund. 

Hjördís Rut Sigurjónsdóttir