Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Íshellan hefur sigið um 70 metra

05.12.2021 - 10:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristín Sigurðardóttir
Íshellan í Grímsvötnum hefur sigið um 70 metra á einni og hálfri viku. Sigið hefur verið langmest síðasta rúma sólarhringinn, frá miðnætti aðfaranótt laugardags, en á þeim tíma hefur íshellan sigið um 40 metra.

Vatnamælingamenn verða við mælingar á rennsli í Gígjukvísl í dag en ekki er búist við niðurstöðum hjá þeim fyrr en eftir hádegi. Síðdegis í gær var rennslið komið í um 2.600 rúmmetra á sekúndu sem var í takt við spár vísindamanna um framgang hlaupsins. Rennslið var þá orðið 26 sinnum meira en það er alla jafna á þessum árstíma. Viðbúið er að mælingar í dag leiði enn hærri rennslistölur í ljós.